Nýr vefur og nýtt merki Veðurstofu Íslands

Veðurstofa Íslands kynnir nýjan vef sinn og nýtt merki í dag. Um er að ræða vef og merki nýrrar stofnunar sem tók til starfa um síðustu áramót þegar Vatnamælingar og eldri Veðurstofa Íslands voru sameinuð í nýja stofnun. 

120 starfsmenn starfa hjá nýju stofnuninni en með stofnun hennar er stefnt að styrkingu faglegrar hæfni og getu sásamt hagræðingu í rekstri. Hlutverk stofnunarinnar er vöktun lofts, láðs og lagar með öflun, greiningu, gæðaeftirliti og varðveislu upplýsinga og rannsóknum. Ennfremur miðlun upplýsinga og þjónusta við notendur.  

Nýjum vef stofunnar er ætlað að verða  helsti miðill upplýsinga stofnunarinnar Slóðin er: http://www.vedur.is

Veigamestu breytingarnar á vefnum eru á forsíðunni en undirsíðurnar breytast einnig töluvert. Efri hluta forsíðunnar verður skipt fernt: veðurspá, veðurathuganir, jarðskjálfta og vatnafar. Hver hluti tekur yfir efri helming forsíðunnar og myndar sjálfstæða forsíðu.

Á nýja vefnum verður vinda-, hita- og úrkomuspám gert hærra undir höfði af öryggisástæðum. Hámörk og lágmörk frá því á miðnætti og frá síðustu klukkustund verða auðfundin. Spákort á undirsíðunum stækka og litakóðarnir á þeim breytast.  

Lista yfir stærstu jarðskjálfta síðustu tvo sólarhringa verður að finna á forsíðu jarðskjálfta ásamt vikuyfirliti og athugasemd jarðvísindamanns.

Á nýrri forsíðu Vatnafars verða yfirlitskort, meðaltalstafla, samantekt vikuyfirlits og athugasemd sérfræðings þegar það á við, en á undirsíðunum verður mikið nýtt efni um vatn og verndun þess, vöktun og nýtingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert