Vilja stöðva hvalveiðar á næsta ári

Hvalur á athafnasvæðinu í Hvalfirði.
Hvalur á athafnasvæðinu í Hvalfirði. mbl.is/ÞÖK

Íslensk stjórnvöld munu reyna að koma í veg fyrir atvinnuveiðar á hvölum á næsta ári og stefna að því að afturkalla ákvörðun fyrri ríkisstjórnar um úthlutun veiðikvóta næstu fimm ár. Þetta hefur Bloomberg fréttastofan eftir Steingrími J. Sigfússyni, sjávarútvegsráðherra.
 
„Ég óttast, að hvalveiðar af þessu umfangi geti verið mjög áhættusamar þegar heildarhagsmunir Íslands eru metnir," sagði Steingrímur í viðtalinu.

Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, gaf út reglugerð skömmu fyrir stjórnarskiptin, þar sem heimilaðar voru veiðar á langreyðum og hrefnu í næstu fimm ár í samræmi við veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Samkvæmt því verða leyfðar veiðar á 150 langreyðum og 100 hrefnum í ár.

„Þetta var ekki mjög lýðræðisleg ákvörðun, sem hann tók á síðustu klukkustundunum í embætti," sagði Steingrímur. „Ég vona, að umheimurinn sýni okkur skilning og geri sér grein fyrir því, að við sátum uppi með ákvörðun fyrri ríkisstjórnar og gátum ekki afturkallað hana á grundvelli mikilvægra raka, að minnsta kosti ekki fyrir árið 2009.   En það þýðir ekki að hægt sé að koma fram með mikilvæg rök," bætti hann við.

Samfylkingin og Vinstrihreyfingin - grænt framboð, starfa nú saman í minnihlutastjórn en skoðanakannanir sýna, að flokkarnir tveir kunni að ná meirihluta í alþingiskosningunum 25. apríl. Steingrímur segir, að ríkisstjórnin muni hafa sterkari stöðu eftir kosningarnar til að afturkalla reglugerðina.

„Ég styð heilshugar rétt lítilla samfélaga til að stunda hefðbundnar strandveiðar í smáum stíl á sjálfbæran hátt. En iðnaðarveiðar í atvinnuskyni eru allt annar handleggur."

Viðtal Bloomberg við Steingrím J.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert