Lokaspretturinn að Kárahnjúkum

Landsvirkjun hefur óskað eftir tilboðum í frágang vinnusvæða á Fljótsdalsheiði, við Laugarfell og á Vestur-Öræfum. Um er að ræða lokafrágang vinnusvæða og sáningu og má segja að þar með ljúki öllum framkvæmdum á Kárahnjúkasvæðinu sem hófust með formlegum hætti haustið 2002.

Fyrsta steypuvinnan við Kárahnjúkavirkjun var 5. október 2002 en þá renndu starfsmenn Malarvinnslunnar hf. á Egilsstöðum steypu í mót millistöpuls undir nýja brú á Jökulsá á Dal (Jöklu) innan við væntanlegt stæði Kárahnjúkastíflu. Verktakar voru farnir með allt sitt af virkjunarsvæðinu í desember síðastliðnum og nú liggur fyrir að ganga endanlega frá vinnusvæðinu.

Það felst m.a. í að ljúka frágangi á haugsvæðum við aðgöng, ganga frá vegum og vinnuplönum, ganga frá námu og slóðum við Laugarfell og gera þar áningar og útsýnisstað ásamt bílastæði. Þá þarf að færa háspennustrengi og taka niður dreifistöðvar og loks að sá á svæðum á virkjunarsvæðinu í sumar.

Vinnusvæðið á Fljótsdalsheiði er í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Verkbyrjun ræðst því af veðurfari, en áætlaður verktími er frá því í maí til ágústloka 2009.

Tilboðsfrestur er til 21. apríl en þá verða tilboð opnuð.

Vefur Landsvirkjunar

Saga Kárahnjúkavirkjunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert