Gagnrýna samninga við fjármálafyrirtæki

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Golli

Þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gagnrýndu harðlega á Alþingi í dag aðgerðir, sem gripið var til vegna tveggja fjármálafyrirtækja, VBS og Saga Capital. Voru stjórnvöld sökuð um að hygla fjármagnseigendum en gera ekki neitt fyrir heimilin í landinu.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarslokks, sagði að með samningum við fyrirtækin tvö hefði ríkið í raun afskrifað þriðjung skulda þeirra með því að bjóða þeim 2% vexti. Á sama tíma væru stjórnarflokkarnir andvígir því að lækka húsnæðisskuldir um 25% á þeirri forsendu að með því væri verið að flytja eignir frá heimilum til fyrirtækja.

Sagði Eygló, að ríkisstjórnin væri að hygla fjármagnseigendum en gerði ekkert fyrir heimilin í landinu. „Hvers vegna er hægt að koma til móts við loftbólufyrirtæki en ekki almenning í landinu?" spurði hún.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði að ekki væri um að ræða að fjármunir hafi farið úr ríkissjóði til þessara fyrirtækja tveggja. Um væri að ræða uppgjör á skuld, sem varð til í endurhverfum viðskiptum við Seðlabankann fyrir hrun.  Ríkissjóður hefði tekið þessa skuld yfir og sett inn skuldabréf til að bjarga fjárhag Seðlabankans. Með samningunum við fyrirtækin tvö stæðu vonir til að ríkissjóður fái fjármuni sína til baka, að þessi fyrirtæki geti staðið við skuldbindingar sínar og fólkið sem þar vinnur haldi vinnunni sinni.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að á sama tíma og gerðir hefðu verið samningar við fyrirtækin tvö, þar sem ríkið hefði ekki einu sinni skrifað niður hlutafé eigendanna, hefði fjármálaráðherra sett þrjú fjármálafyrirtæki á hausinn með fjölda starfsmanna. Þá hefðu fyrirtækin boðið á móti MP banka í eignir SPRON. Spurði Pétur, hvort það gæti verið að ástæðan fyrir þessari mismunun væri, að Saga Capital sé í kjördæmi fjármálaráðherrans.

Álfheiður svaraði að fyrirtækin þrjú hefðu sjálf sett sig á hausinn. Hún ítrekaði að engir fjármunir hefðu runnið til VBS og Saga Capital við samningana. Dögg Pálsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði hins vegar að fjármunirnir hefðu runnið til fyrirtækjanna í haust enda væri um að ræða skuld þeirra við ríkissjóð.

Hún benti á að á sama tíma og fyrirtækin tvö þyrftu að greiða 2% vexti af skuldinni þyrftu almennir borgarar, sem skulduðu skatta, að greiða 15-25% vexti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert