Viðskiptaráðherra vill skera blaðamenn úr snörunni

Fjórir blaðamenn hafa fengið bréf frá Fjármálaeftirlitinu þar sem þeim er borið á brýn að hafa brotið lög um bankaleynd og þeir beðnir um að gera grein fyrir máli sínu. Þetta eru þau Egill Helgason, Þorbjörn Þórðarson, Agnes Bragadóttir og Kristinn Hrafnsson.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra er ekki hamingjusamur með þessa framvindu mála en segir Fjármálaeftirlitið verða að framfylgja lögum í landinu. Hann taki hinsvegar ekki afstöðu til þess fyrirfram hvort þessi laga túlkun er rétt. Gylfi hefur sjálfur sagt að bankaleynd í núverandi mynd sé fráleit en unnið er að því að breyta lögum um bankaleynd.

Gylfi segir ljóst að ekki sé hægt að afnema með öllu bankaleynd fyrir hrunið en fólk eigi rétt á því að fá upplýsingar um þá viðskiptahætti sem leiddu til hrunsins.

Hann segist hafa mikla samúð með blaðamönnunum. Hann var spurður hvort ekki hefði verið hengdur bakari fyrir smið og sagðist að bragði vona að þeir yrðu ekki hengdir. Ef svo færi yrði að skera þá niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert