Hluti reksturs Primera úr landi

Primera Air
Primera Air

Íslenska flugfélagið Primera Air vinnur nú að því að fá flugrekstrarleyfi fyrir nokkrar véla sinna í Danmörku, þar sem viðskiptaumhverfið á Íslandi er slíkt að rekstrinum er gert verulega erfitt fyrir, að sögn Jóns Karls Ólafssonar forstjóra fyrirtækisins. 

„Við erum að lenda í vandræðum með flugrekstrarleyfin vegna ástandsins hérna og erum í raun að lokast inni,“ segir Jón Karl. „Við setjum gjaldeyrishöft hér en það sem gerist úti er að þar setja menn viðskiptahöft líka. Við höfum til dæmis verið að fljúga mikið frá Skandinavíu til Tyrklands og Egyptalands og nú er hreinlega verið að loka á slíkar leiðir ef þú ert Íslendingur.“

Primera Air rekur sex flugvélar. Skrifstofan og almennur rekstur verður áfram hérlendis en fyrirtækið mun eftirleiðis hafa flugrekstrarleyfi bæði hér og í Danmörku. „Það er bara erfitt að reka íslenskt fyrirtæki í dag, ef þú ert með stærstan hluta af viðskiptum og fjárfestingum erlendis.  Trúverðugleikinn og traustið á íslenskum fyrirtækjum er ekki mikið, við erum krafin um fyrirframgreiðslu á öllu. Þegar þú þarft að vinna 100% á við erlend fyrirtæki þá þurfa menn bara að koma sér í skjól til annarra landa líka, það er því miður staðreynd,“ segir Jón Karl.

Viðskiptaþvinganir og einangrun  

Hann nefnir einnig að Evrópusambandið sé nú að vinna að gerð nýrra samninga við lönd eins og t.d. Tyrkland og Egyptaland. „að er ekkert sjálfgefið að Íslendingar verði meðlimir í þessum samningum. Þannig að stór hluti af þessu er að við erum að lokast inni hérna með því að vera ekki þáttur af stærri heild.“

„Svo verður þetta að koma í ljós en það gæti alveg farið svo að við þyrftum að flytja fleiri flugvélar yfir á danska leyfið, ef að til dæmis við förum ekki að koma okkur inn í Evrópusambandið svo ég tali beint út. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við að það skapar okkur ákveðnar viðskiptaþvinganir að vera ekki þar inni,“ segir Jón Karl sem segist vita til þess að fleiri íslensk fyrirtæki sjái sér þann kost vænstan að flytjast á erlenda grundu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert