120 milljónir króna í sekt

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri til að greiða 120 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs vegna brota á skattalögum. Hann var að auki dæmdur í 11 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Maðurinn fær fjórar vikur til að greiða sektina en þarf að sitja inni í tólf mánuði takist það ekki.

Maðurinn sem er málarameistari stundaði sjálfstæða atvinnustarfsemi. Hann játaði að hafa staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 2006 og maí-júní og júlí-ágúst 2007. Þá skilaði hann ekki virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin júlí-ágúst 2006 til og með mars-apríl 2007, og september-október og nóvember-desember 2007.

Alls sleppti maðurinn að greiða virðisaukaskatt upp á rúmar 60 milljónir króna.

Brot mannsins telst stórfellt og sektin ákveðin með hliðsjón af refsilágmarki svo að nemi tvöfaldri vanskilafjárhæð. Hann hefur ekki áður sætt refsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert