Dæmdur fyrir vítaverðan ölvunarakstur

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 32 ára karlmann í sextíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir ölvunarakstur og fyrir að hafa með vítaverðum akstri orðið valdur að þeim meiðslum fjögurra einstaklinga. Einn þeirra hálsbrotnaði. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að óhóflegur dráttur var á meðferð málsins. Maðurinn var einnig sviptur ökurétti í tvö ár.

Maðurinn ók bifreið sinni ölvaður um götur Reykjavíkur í febrúar árið 2007. Vínandamagn í blóði hans mældist 2,13‰. Bifreiðinni ók hann svo óvarlega að hann ók aftan á tvo bíla á leið sinni, en hélt áfram sína leið. Í öðru tilvikinu svo harkalega að ökumaður hins bílsins missti stjórn á bíl sínum. Rakst bifreiðin á vegrið, valt og hafnaði utan vegar. Fjórir voru í bifreiðinni og slösuðust allir.

Bílstjórinn slasaðist mest, efsti hálsliður hans brotnaði á fjórum stöðum, skrið kom á fjórða til sjöunda hálslið og hann hlaut svöðusár á hvirfil. Einn farþeganna hlaut brot á sköflungi vinstri fótar og stór opið sár á hægra hné. Aðrir farþegar hlutu minni meiðsl, tognanir og eymsli.

Maðurinn játaði brot sitt. Hann hefur ekki sætt refsingu áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert