Sat í stjórn Gildis í tvö ár

Gildi-lífeyrissjóður hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ályktunar Sjómannafélags Íslands þar sem fram kemur að sá sem ritar undir gagnrýni félagsins, Birgir Hólm Björgvinsson, sat í stjórn Gildis í tvö ár. Stjórn Sjómannafélags Íslands telur að stjórn Lífeyrissjóðsins Gildi, framkvæmda- og sjóðsstjórar beri að víkja.

„Yfirlýsing frá Gildi-lífeyrissjóði vegna ályktunar Sjómannafélags Íslands.
 
Vegna ályktunar Sjómannafélags Íslands í dag vill Gildi-lífeyrissjóður upplýsa eftirfarandi:
 
Birgir Hólm Björgvinsson, framkvæmdastjóri Sjómannafélags Íslands, sem ritaði undir yfirlýsingu sem send var til fjölmiðla í morgun, sat í stjórn Gildis-lífeyrissjóðs í tvö ár, frá maí 2006 til maí 2008.  Bæði árin sem Birgir sat í stjórn samþykkti hann fjárfestingarstefnu sjóðsins og undirritaði ársreikninga án athugasemda.  Birgir ber því sömu ábyrgð á fjárfestingum sjóðsins og aðrir sem komu að fjárfestingunum.

 Hafi hann fyrir hönd Sjómannafélags Íslands haft athugasemdir við starfsemi sjóðsins eða fjárfestingar hans bar honum skylda til að koma þeim á framfæri við stjórn og framkvæmdastjóra hans enda hafði hann á þessu tímabili aðgang að gögnum sjóðsins sem stjórnarmaður.  Á þessum tveimur árum gerði Birgir aldrei athugasemdir við fjárfestingar sjóðsins né annað varðandi starfsemi hans.  Eftir að Birgir hvarf úr stjórn sjóðsins hefur hann ekki heldur komið með fyrirspurnir eða athugasemdir til sjóðsins.  Eðlilegt er að skoða yfirlýsingu hans í þessu samhengi," að því er segir í yfirlýsingu frá Gildi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert