Vill að stjórn Gildis víki

Stjórn Sjómannafélags Íslands telur að stjórn Lífeyrissjóðsins Gildi, framkvæmda- og sjóðsstjórar beri að víkja. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnin hefur sent frá sér eftir að hafa setið aðalfund Lífeyrissjóðsins Gildi, þar sem kynnt var gríðarlegt tap sjóðsins og 10% skerðing á greiðslum til félagsmanna, en ekki þykir ólíklegt að frekari skerðing þurfi að koma til síðar. 

Í ályktun stjórnar Sjómannafélags Íslands kemur fram að annar fulltrúi atvinnurekanda í stjórn sjóðsins hafi varið fjárfestingar í hlutabréfum og skuldabréfum fyrirtækja þrátt fyrir að sá peningur hafi nánast allur tapast.

Svo heldur ályktunin áfram: „Teljum við að eftir svona útkomu beri stjórn, framkvæmda- og sjóðsstjóra að víkja. Fjárfestingastefna sjóðsins verði endurskoðuð og gerð verði krafa um traustari veð verði fyrir útlánum í framtíðinni. Einnig setur félagið spurningarmerki við setu fulltrúa atvinnurekanda í stjórn sjóðsins enda virðast þeir hafa aðra hagsmuni en velferð hins almenna sjóðfélaga að leiðarljósi.

Reykjavik 29. Apríl 2009

Stjórn Sjómannafélags Íslands“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert