„Fullyrðing sem stenst engan veginn“

Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.
Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. JIM Smart

„Þetta er fullyrðing sem stenst engan veginn,“ segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauði kross Íslands, um þau ummæli Lindu Magnúsdóttur, sjúkraliða, að RKÍ hafi í samvinnu við Útlendingastofnun og lögregluna haft í hótunum við  hælisleitandann Mansri Hichem og sagt honum, að hætti hann ekki að tala við fjölmiðla og bindi ekki enda á hungurverkfall sitt þá verði  hann sendur strax úr landi. 

„Við höfum auðvitað komið heilmikið að þessu máli að undanförnu eins og við gerum undir öllum öðrum kringumstæðum,“  segir Kristján. Bendir hann á að RKÍ virði alfarið ákvarðanir Hichem, þannig sé það hans sjálfs að ákveða hvort hann vilji tala við fjölmiðla eða ekki. „Það að tala um einhvers konar hótanir er fráleitt,“ segir Kristján. 

„Við höfum verið að aðstoða hann við að finna lausnir á sínum málum. Slíkt hefur algjörlega verið gert samkvæmt hans óskum. Við höfum þannig aðstoðað hann við að koma óskum hans á framfæri við íslensk yfirvöld," segir Kristján.

Í samtali við mbl.is í gær hélt Linda því einnig fram að starfsmaður Rauða krossins hefði komið með pappíra til Hichems sl. mánudag á íslensku sem hann hefði átt að skrifa undir. Segir hún að um hafi verið að ræða samning um að Hichem fengi að fara í nám eða vinna ef hann léti af hungurverkfalli sínu. 

Þegar þetta er borið undir Kristján segir hann ljóst að RKÍ hafi hvorki umboð  né heimild til að bjóða neitt þessu líkt. „Okkar hlutverk er að fylgja því eftir að fólk fái notið þeirra réttinda sem því ber samkvæmt lögum og alþjóðlegum samningum.“

Spurður hvort Hichem hafi á síðustu vikum verið beðinn um að undirrita einhver önnur skjöl en skjal þar sem hann frábæði sér læknisaðstoð vegna hungurverkfalls síns segist Kristján ekki vita til þess. Tekur hann fram að þeir pappírar sem starfsmenn RKÍ hafi komið með til Hichem sl. mánudag hafi snúið að því að koma óskum hans á framfæri við íslensk yfirvöld. 

Spurður hvort hann telji að ummæli Lindu um RKÍ, Útlendingastofnun og lögregluna geti haft neikvæð áhrif á mál Hichem svarar Kristján því neitandi og bendir á að ummælin dæmi sig sjálf. „Ég sé ekki að þessi ummæli geti skaðað hans mál. Ég treysti því að þetta mál sé í farvegi. Mér skilst að pappírar frá lögmanni hans hafi komið inn í gær, þannig að þar með er þetta allt í eðlilegum farvegi.“

Mansri Hichem
Mansri Hichem Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert