Eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar undir mörkum

Byggðastofnun er með höfuðstöðvar á Sauðárkróki.
Byggðastofnun er með höfuðstöðvar á Sauðárkróki. www.mats.is

Eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar var 2,84% um síðustu áramót og því undir þeim 8% mörkum, sem áskilin eru í lögum um fjármálafyrirtæki. Mikil eftirspurn er nú eftir lánum hjá Byggðastofnun og í raun miklu meiri en stofnunin ræður við að uppfylla.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Byggðastofnunar en ársfundur stofnunarinnar verður haldinn á morgun. Í skýrslunn segir, að hrun fjármálafyrirtækja og gengisfall íslensku krónunnar hafi haft veruleg áhrif á rekstur og efnahag stofnunarinnar.

Vegna gengisfalls krónunnar hefur útlánasafn stofnunarinnar stækkað mun meira en gera hefði mátt ráð fyrir í venjulegu árferði. Þurfti hún því að leggja rúmlega 1100 mkr. inn á varasjóð til að halda hlutfalli varasjóðs af útlánum í svipuðu hlutfalli og 2007.

Þá hefur orðið að færa verulega niður hlutafjáreign stofnunarinnar, eða um rúmar 400 milljónir. Einnig hefur dregið úr afborgunum útlána.

„Það er hins vegar mat okkar að útlánasafn stofnunarinnar sé traust. Útlánasafnið er mjög frábrugðið útlánasöfnum viðskiptabankanna. Á bak við það standa fyrirtæki í fjölbreyttum rekstri, á sviði sjávarútvegs, ferðaþjónustu, landbúnaðar og fleiri gjaldeyrisskapandi eða gjaldeyrissparandi greina. Staðan á lánsfjármarkaði er mjög erfið um þessar mundir, og er eftirspurn eftir lánum Byggðastofnunar nú meiri en nokkru sinni í sögu stofnunarinnar," segir í ársskýrslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert