Fleiri græn skref samþykkt í borgarstjórn

Borgarstjórn samþykkti í dag á fjórða tug aðgerða í umhverfismálum
Borgarstjórn samþykkti í dag á fjórða tug aðgerða í umhverfismálum

Græn skref fyrir árið 2009 voru samþykkt í borgarstjórn í dag með 14 samhljóða atkvæðum og felast þau í á fjórða tug aðgerða í umhverfismálum. „Það er ánægjulegt hversu vel Græn skref í Reykjavík hafa gengið og mun Reykjavíkurborg áfram stíga stór vistvæn skref og verða til fyrirmyndar í umhverfismálum,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, í tilkynningu.

90% af 45 skrefum komin til framkvæmda eða lokið

Fjörutíu og fimm græn skref voru sett fram árið 2007 og nú er 90% þeirra annað hvort lokið eða komin vel af stað.

Meðal þeirra aðgerða sem hrint verður í framkvæmd í nafni grænna skrefa á árinu eru fjölgun forgangsreina fyrir strætó, fjölgun tenginga fyrir rafmagnsbíla í bílastæðahúsum og hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík verður brátt samþykkt.

Gönguleiðir skólabarna verða merktar og kynntar sérstaklega og bekkjum og handriðum komið fyrir við göngustíga sem tengja búsetusvæði eldri borgara og nálæg útivistarsvæði. Lagning verður hafin á hjólreiðastíg í Fossvogi milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar samhliða núverandi göngustíg.

Öll hverfi fá eigið náttúrusvæði til útikennslu og umhverfisfræðslu. Að búa til sælureit nefnist aðgerð sem felst í samstarfsverkefni milli borgar og íbúa um að skapa og annast sælureiti í hverfum borgarinnar. Áfram verður unnið að betri loftgæðum í borginni og verður meðal annars loftlags- og loftgæðastefna fyrir Reykjavík samþykkt, samkvæmt upplýsingum frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar.

Sjá nánar á vef umhverfissviðs Reykjavíkurborgar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert