Akureyri: Nauðsynlegt að ná sátt um stjórn fiskveiða

Hermann Jón Tómasson oddviti Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs Akureyrar og …
Hermann Jón Tómasson oddviti Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs Akureyrar og Sigrún Björk Jakobsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri. mbl.is/Skapti

Bæjarráð Akureyrar telur nauðsynlegt að skapa vinnufrið í íslenskum sjávarútvegi og ná sátt um stjórn fiskveiða. Ráðið leggur áherslu á að við fyrirhugaða endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði haft samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og jafnframt verði áhersla lögð á að eyða eins fljótt og kostur er þeirri óvissu sem skapast hefur vegna þessarar fyrirhuguðu endurskoðunar. Ályktun þessa efnis var samþykkt á síðasta fundi ráðsins.

Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs og oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn, lagði fram tillögu að bókun svohljóðandi:

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs segir m.a.:

„Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem framundan er.  Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Bæjarráð Akureyrar tekur heilshugar undir þetta.  Það er löngu tímabært að skapa vinnufrið í íslenskum sjávarútvegi og ná sátt um stjórn fiskveiða.  
Bæjarráð leggur áherslu á að við fyrirhugaða endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði haft samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi með það að markmiði að tryggja að fiskveiðar og vinnsla Íslendinga skapi þjóðinni sem mest verðmæti.  Jafnframt verði áhersla lögð á að eyða eins fljótt og kostur er þeirri óvissu sem skapast hefur vegna þessarar fyrirhuguðu endurskoðunar.

Meirihluti bæjarráðs samþykkti bókunina.
Jóhannes Gunnar Bjarnason, Framsóknarflokki, sat hjá við afgreiðslu.
Oddur Helgi Halldórsson, áheyrnarfulltrúi af L-lista, tók ekki afstöðu til bókunarinnar.

Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku var aftur rætt um sjávarútvegsmál,  að ósk Jóhannesar Gunnars Bjarnasonar. Tilefnið var fyrirhuguð fyrningaleið ríkisstjórnarinnar á kvóta sjávarútvegsfyrirtækja.


Jóhannes lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:


„Bæjarstjórn Akureyrar skorar á ríkisstjórn Íslands að endurskoða þau áform sín að fara svokallaða fyrningaleið í úthlutun fiskikvóta gagnvart útgerðarfyrirtækjum á Íslandi.  Flestum ber saman um að núverandi kvótakerfi er gallað og mun eðlilegra að sníða þá vankanta af en fara þessa leið.  Rekstrargrundvöllur og áætlanir eru í uppnámi vegna fyrirhugaðra breytinga og við slíkt getur undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar ekki búið til lengri tíma."

Fram kom tillaga um að vísa tillögunni til bæjarráðs og var hún samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.
Dýrleif Skjóldal og Kristín Sigfúsdóttir, VG, Víðir Benediktsson, L-lista, og Jóhannes Gunnarsson Bjarnason sátu hjá við afgreiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert