Dæmdur fyrir innbrot í banka

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag danskan sjóliða í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að brjótast inn í útibú Kaupþings í Austurstræti í Reykjavík á mánudagskvöld og stela 5165 krónum.

Maðurinn, sem er skipverji á danska varðskipinu Hvidbjørnen, sparkaði í og reif upp tvær rennihurðir á bankanum og stal síðan mynt úr skúffu. Maðurinn játaði brot sitt. Fram kemur í dómnum að maðurinn, sem er 21 árs, hafi verið sektaður í Danmörku fyrir þjófnað. 

Þegar maðurinn braust inn í bankann var hann mjög æstur og líklega undir áhrifum örvandi efna.  Þegar verið var að flytja hann á lögreglustöð stöðvaðist hjarta hans en lögreglumönnum tókst að bjarga lífi hans með hjartahnoði. 

Maðurinn braust inn í bankann með því að glenna einfaldlega í sundur rennihurðir sem þar eru. „Þetta eru hefðbundnar rennihurðir en ef brotaviljinn er einbeittur er hægt að komast í gegn um hvaða hindrun sem er,“ segir Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi Kaupþings, þegar hún er innt eftir þessu. 

Hún segir öryggiskerfi bankans einnig vera með hefðbundnu sniði, en vill ekki fara nánar út í smáatriði þar að lútandi. En verður kerfið endurskoðað eða hert á reglum í kjölfar þessa atviks? „Það er alltaf farið yfir öryggismál þegar svona mál koma upp,“ svarar hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert