50 milljarðar á reikningi

Fjármálaráðherra og forsætisráðherra á blaðamannafundi í stjórnarráðinu síðdegis.
Fjármálaráðherra og forsætisráðherra á blaðamannafundi í stjórnarráðinu síðdegis. mbl.is/Golli

Afborganir, sem greiddar hafa verið af lánum, sem Landsbankinn veitti á Bretlandseyjum, hafa verið lagðar inn á biðreikning í umsjón breskra stjórnvalda. Þar hafa þær legið vaxtalaust.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á blaðamannafundi í dag, þar sem Icesave-samkomulagið var kynnt, að eignasöfn Landsbankans hefðu verið könnuð ýtarlega. Þetta væru fyrst og fremst útlánasöfn tiltölulega sterkra greiðenda. Þær afborganir, sem greiddar hefðu verið af þessum útlánum frá því bresk stjórnvöld frystu eignir Landsbankans þar í landi í október, hefðu hlaðist vaxtalaust upp á reikningi í Englandsbanka.

„Þar eigum við nú rúmar 230 milljónir punda, um 50 milljarða króna, sem losna núna og hægt er að nota til að greiða höfuðstólinn núna," sagði Steingrímur.  Gert er ráð fyrir að frystingu eigna Landsbankans í Bretlandi verði aflétt fyrir 15. júní.

Alls nam heildarupphæð innistæðna á Icesave reikningunum í Bretlandi og Hollandi rúmlega 1200 milljörðum króna en um 340 þúsund sparifjáreigendur áttu fé á þessum reikningum. Gert er ráð fyrir að Tryggingasjóður innistæðueigenda á Íslandi ábyrgist 20.887 evrur á hvern reikning eða um 660 milljarða króna miðað við núverandi gengi.

Stjórnvöld segja, að í forsendum samkomulagsins, sem gert hefur verið við Breta og Hollendinga, sé lagt til grundvallar varfærið mat á eignum Landsbankans og við það miðað, að á næstu sjö árum muni 75% af andvirði Icesave innistæðutrygginganna greiðast af þeim. Ef það gengur eftir verða eftirstöðvarnar um 175 milljarðar króna, sem gætu fallið á ríkissjóð eftir sjö ár.

Breska endurskoðunarskrifstofan CIPFA gerir hins vegar ráð fyrir því, að eignir Landsbankans geti staðið undir allt að 95% af andvirði Icesave innistæðutrygginganna og gerist það myndu um 33 milljarðar króna á núverandi gengi falla á ríkið auk vaxta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert