Alloft gerðar verðkannanir

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri.
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri. mbl.is/ÞÖK

Verkefni á sviði auglýsinga og kynningarstarfsemi eru yfirleitt of smá í sniðum til að það borgi sig að halda formleg útboð. Hins vegar eru alloft gerðar verðkannanir. Þetta kemur fram í skriflegum greinargerðum tveggja sviðstjóra hjá Kópavogsbæ, vegna fyrirspurnar Samfylkingarinnar um viðskipti bæjarins við Frjálsa miðlun ehf.

Í greinargerðum þessum eru dæmi um að leitað hafi verið verðtilboða, en fjalla þær þó fremur almennt um verklag, samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ.

Í skýrslu Deloitte um málið er m.a. gagnrýnt að ekki hafi verið gerðir skriflegir verksamningar eða verðkannanir vegna verka sem FM vann fyrir Kópavogsbæ. Gunnar Birgisson bæjarstjóri segir í Morgunblaðinu í dag að það gangi þvert á upplýsingar sínar frá sviðstjórunum.

Vegna fjölda reikninga fyrir afmælisrit bæjarins, vísar Gunnar ennfremur til afmælisnefndarinnar, þangað skuli leita skýringa.

Hansína Á. Björgvinsdóttir, sem var formaður nefndarinnar, kveðst ekki muna nægilega vel eftir málsatvikum því langt sé um liðið, en hefur óskað eftir fundargerðum og gögnum frá Kópavogsbæ.  Hún vill ekki tjá sig um málið fyrr en hún hefur gögnin undir höndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert