Kirkjubónda gefinn kostur á andmælum

Möðruvallakirkja er í gamla Saurbæjarhreppi, nú Eyjafjarðarsveit.
Möðruvallakirkja er í gamla Saurbæjarhreppi, nú Eyjafjarðarsveit. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Menntamálaráðuneytið hefur gefið lögmanni eiganda jarðarinnar Möðruvalla í Eyjafirði kost á andmælum við ákvörðun safnaráðs um að synja honum um leyfi til útflutnings á fornri altarisbrík Möðruvallakirkju til Englands. Ákvörðun safnaráðs stendur óhögguð á meðan andmæli hafa ekki verið fengin og metin.

Möðruvallakirkja er í eigu jarðareiganda, svokölluð bændakirkja. Í henni eru fágætir gripir frá fyrri öldum. Höfuðprýði kirkjunnar er altaristaflan, alabastursbrík frá seinni hluta fimmtándu aldar. Eigandi jarðarinnar hefur fengið fyrirspurn frá enska uppboðshúsinu Christies og talið er að gott verð gæti fengist fyrir bríkina við sölu þar.

Bannað er að flytja úr landi forngripi nema með leyfi safnaráðs. Ráðið ákvað að heimila ekki útflutning og vísaði til umsagna Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Fornleifaverndar ríkisins og biskups Íslands sem eru á einu máli um mikilvægi altaristöflunnar fyrir íslenska þjóðmenningu. Menntamálaráðuneytið tekur endanlega ákvörðun um leyfi til útflutnings. Fornleifavernd hefur jafnframt hafið undirbúning friðlýsingar gripa kirkjunnar sem sjálf er friðlýst.

Menntamálaráðuneytið hefur sent lögmanni eiganda jarðarinnar ákvörðun safnaráðs og umsagnir og gefið honum kost á andmælum. Hann hefur frest til 22. þessa mánaðar. Safnaráði hefur jafnframt verið tilkynnt um stöðu málsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert