Þarf ekki að greiða 19 þátttakendum bætur

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur sýknaði í dag forsvarsmenn innanhússstílistanámskeiðs af kröfu um að greiða 19 þátttakendum í námskeiðinu bætur. Fólkið krafðist skaðabóta vegna þess að námið hefði ekki verið í samræmi við fyrirheit. Héraðsdómur féllst á sjónarmið þátttakenda en Hæstiréttur sneri dóminum við.

Námið kostaði 560 þúsund krónur. Alls skráðu sig 33 nemendur á námskeiðið. 5 nemendur munu hafa hætt námi og 9 nemendur kláruðu námið en fengu 112 þúsund króna afslátt. 19 nemendur kröfðust hins vegar mun hærri endurgreiðslu og töldu að námskeiðið hefði ekki uppfyllt þær kröfur, sem gera mætti til þess. Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu, að hæfilegt gjald fyrir námskeiðið hefði verið 132 þúsund krónur og dæmdi félagið, sem stóð fyrir námskeiðinu, og forsvarsmann félagsins til að endurgreiða fólkinu mismuninn.

Í dómi Hæstaréttar segir að þegar haft sé í huga að þátttakendur hafi tekið þátt í námskeiði utan hins almenna skólakerfis og reist mat sitt á því á óljósum grundvelli yrðu þeir sjálfir að bera hallan af því að væntingar þeirra gengu ekki eftir. Jafnframt var talið haldlaust að byggja á því að kröfum náms í innanhússstílistun hefði ekki verið mætt, þar sem hvergi hefði komið fram skilgreining á hvað fælist í slíku námi, né hvaða sá ætti að kunna sem titilinn innanhússstílisti ber.

Upphaf málsins má rekja til þess, að auglýsing birtist í Fréttablaðinu, þar sem kynnt var nýtt innanhússstílistanám á vegum The Academy of Colour and Style. Boðað var að á námskeiðinu yrði farið yfir helstu grunnþætti í lita- og línufræði og kennt að meta stíl út frá persónunni sjálfri. Þá kom fram að kennd yrði lita- og línufræði, tóngreining, vaxtabygging, heitt og kalt rými, stórt og lítið rými og uppröðun hluta. Þá ætti að hanna baðherbergi, svefnherbergi, barnaherbergi, eldhús, garðhýsi, stofu og margt fleira.

Í auglýsingunni birtist mynd af Önnu F. Gunnarsdóttur, eiganda og framkvæmdastjóra Fágunar ehf., og hún kynnti einnig námskeiðið í viðtölum við fjölmiðla.

Í niðurstöðu Héraðsdóms segir m.a. að í auglýsingunni komi skýrlega fram, að The Academy of Colour and Style sé að bjóða upp á þetta námskeið. Auglýsingin verði ekki skilin á annan hátt en þann en að hér sé um erlendan aðila að ræða. Ekkert í auglýsingunni gefi til kynna að um sé að ræða fyrirtæki sem Anna eigi og hafi rekið í mörg ár.

Hæstiréttur féllst ekki á það að Anna hefði beitt svikum við kynningu námskeiðsins eða gerð samninga við þátttakendur. Það eitt að nám tengist erlendum skóla segi í raun ekkert til um gæði þess.

Í málflutningi í héraði kom fram, að The Academy of Colour and Style hafi verið breskt fyrirtæki og ekki sé um eiginlegan skóla að ræða heldur hugmyndafræði breskrar konu, Barböru Jacques. Hjá henni lærði Anna meðal annars um litgreiningu og fleira. The Academy of Colour and Style í Bretlandi kenni hvorki innanhússstílistun né annað varðandi innanhússhönnun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert