Framsókn leggst undir feld

Framsóknarmenn íhuga áframhaldandi samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi.
Framsóknarmenn íhuga áframhaldandi samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi. mbl.is/Arnaldur

Framsóknarmenn í Kópavogi skoða nú hug sinn varðandi áframhaldandi samstarf innan bæjarstjórnarinnar í kjölfar yfirlýsingar Gunnars I. Birgissonar um að hann fari í tímabundið leyfi á meðan lögreglan rannsakar málefni Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar.

Gestur Valgarðsson, formaður Framsóknarfélags Kópavogs í Kópavogi, sagði í samtali við mbl.is að framsóknarmenn stæðu frammi fyrir tveimur kostum. Annar sé að mynda nýjan meirihluta með Samfylkingunni og VG og hinn að halda samstarfi með sjálfstæðismönnum áfram nú þegar Gunnar Birgisson hefur vikið sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi.

Meta kostina í stöðunni

Dugar þessi yfirlýsing frá Gunnari I Birgissyni um að hann fari í tímabundið leyfi frá störfum sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi? „Já, það dugar á meðan við metum þessa tvo valkosti sem við höfum, áframhaldandi samstarf við bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins eða samstarf við Samfylkinguna. Ég á von á því að Ómar Stefánsson (oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn) gefi út yfirlýsingu um það mjög fljótlega hvor leiðin verði farin. Það er ekki við hæfi að ég sé að tilkynna hana fyrirfram," sagði Gestur.

Ómar sagði í samtali við mbl.is fyrir skömmu að hann myndi ekki gefa út neinar tilkynningar þar að lútandi fyrr en eftir fund í fulltrúaráði flokksins sem haldinn verður klukkan átta annað kvöld.

Dugar yfirlýsing Gunnars ykkur framsóknarmönnum? „Við þurfum bara að meta það, það verður engin yfirlýsing gefin út í kvöld. Það er fundur á morgun," sagði Ómar.

Frétti það í beinni útsendingu

Hver eru viðbrögð þín við tímabundnu leyfi bæjarstjórans? „Þetta er hlutur sem ég átti ekki alveg von á, ég heyrði þetta örskömmu áður en það kom bara í beinni útsendingu í sjónvarpinu og staðan er sú að ég klárlega verð að gera upp hug minn og síðan mun ég segja framsóknarmönnum frá því,"sagði Ómar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert