Sumarskóli með NASA

Fjallað er um rannsóknir Phoenix-geimfarsins á Mars. Fyrirlesturinn er mikill …
Fjallað er um rannsóknir Phoenix-geimfarsins á Mars. Fyrirlesturinn er mikill fengur fyrir áhugafólk um stjörnufræði.

Á morgun fer af stað alþjóðlegur sumarskóli í stjörnulíffræði á vegum NASA, NordForsk, Háskólans á Hawaii og Háskóla Íslands. Við skólann, sem ber heitið ,,Vatn, ís og uppruni lífs í alheimi”, kenna ýmsir
af fremstu vísindamönnum heims á þessu sviði. Boðið er upp á fyrirlestur um Mars annað kvöld.

Nemendur eru 43 framhaldsnemar frá Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu.

Sem fyrr segir er boðið upp á opinn fund á morgun, mánudag, fyrir almenning af þessu tilefni, en þá munu þrír erlendir vísindamenn flytja stutta fyrirlestra um reikistjörnuna Mars, ístungl ytra sólkerfisins og halastjörnur í Sal 1 í Háskólabíói frá kl. 18:30 til 20:15.

Við það tilefni mun David Fisher frá Rannsóknarmiðstöð Kanada fjalla um rannsóknir Phoenix-geimfarsins á Mars, Paul Helfenstein frá Cornellháskóla í Bandaríkjunum mun tala um ístungl í sólkerfinu og Karen Meech frá Hawaiiháskóla fræða gesti um rannsóknir á halastjörnum.

Að loknu kaffihléi mun svo Dale Andersen frá Carl Sagan miðstöð SETI-stofnunarinnar ræða um rannsóknir á lífi í alheimi.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er aðgangur ókeypis.

Að fyrirlestrunum loknum verður sýnd stutt fræðslumynd um leit að lífi á Suðurheimskautinu og á Mars. 

Árið 2009 er alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar og geta áhugasamir lesið meira um sumarskólann hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert