Hitabylgja á Íslandi og Bretlandi

Afar hlýtt er í veðri víða í Evrópu þessa dagana og hefur Ísland ekki farið varhluta af hlýindunum og fór hitinn víða yfir 20 gráður á Norðurlandi og Austurlandi í dag. Í Bretlandi fór hitinn í tæpar 32 gráður í dag og er þetta heitasti dagur ársins þar í landi það sem af er ári.

Hitinn mældist 26,3 gráður að Torfum í Eyjafirði í dag og er það væntanlega hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi í ár. Í Ásbyrgi mældist hitinn 25,2 gráður og á Húsavík 24,4 gráður. En það var ekki einungis hlýtt á láglendi því í Svartárkoti fór hitinn í 23,1 gráðu og á Möðrudal 21,7 gráður.

Veðurspáin fyrir næsta sólarhring á Íslandi: Suðlæg átt 5-10 m/s, en hægari breytileg átt eða hafgola norðan- og austantil. Skýjað og þurrt að mestu sunnan og vestan til á landinu, en bjart með köflum norðan- og austanlands. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast í innsveitum norðaustanlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert