Fjögur ný svínaflensutilfelli

Svínaflensubóluefnið gæti komið á markað innan tíðar.
Svínaflensubóluefnið gæti komið á markað innan tíðar. Reuters

Síðasta sólarhringinn hafa greinst fjögur tilfelli á Íslandi með nýju inflúensuna A(H1N1)v og eru inflúensutilfellin því orðin 15 samtals frá því í maí sl. Um er að ræða tvær konur 24 og 33 ára sem ekki hafa ferðast erlendis og virðast því hafa smitast innanlands.

Þá greindist inflúensan hjá 21 árs gömlum karli sem kom frá Filippseyjum 15. júlí sl. og 7 ára gömlum dreng sem einnig kom frá Filippseyjum 16. júlí sl. en tengdust að öðru leyti ekki.

Öll á batavegi

Engin þessara fjögurra sjúklinga var með alvarleg einkenni og eru þeir allir á batavegi, samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu.

Flest tilfelli sem hingað til hafa greinst hér á landi hafa ferðast erlendis eða tengst þeim sem það hafa gert. Þrjú tilfellanna sem hafa greinst hafa ekki ferðast erlendis eða tengst þeim sem það hafa gert svo vitað sé.

Alls eru yfir 700 látnir úr svínaflensu í heiminum frá því faraldurinn braust út í vor, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert