Andlát: Oddgeir Guðjónsson

Oddgeir Guðjónsson
Oddgeir Guðjónsson mbl.is

Oddgeir Guðjónsson, bóndi og hreppstjóri í Tungu í Fljótshlíð, lést föstudaginn 14. ágúst síðastliðinn, 99 ára að aldri.

Oddgeir var hreppstjóri Fljótshlíðarhrepps 1959-1984, sat í stjórn Búnaðarfélags Fljótshlíðarhrepps 1946-1976, í stjórn Kaupfélags Rangæinga 1956-1980 og var formaður sjúkrasamlags hreppsins um árabil. Hann var formaður ungmennafélagsins Þórsmerkur, sat í skólanefnd Fljótshlíðarskóla, í sóknarnefnd Breiðabólstaðarsóknar, í stjórn Kirkjukórasambands Rangárvallaprófastsdæmis, í stjórn Kirkjukórs Fljótshlíðar og var formaður Gróðurverndarnefndar Rangárvallasýslu.

Oddgeir stundaði ættfræðirannsóknir og safnaði örnefnum og þjóðlegum fróðleik um heimabyggð sína, sérstaklega Njálssögu. Hann hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir fræðastörf og eflingu íslensks handverks árið 2003.

Kona Oddgeirs var Guðfinna Ólafsdóttir, bóndi og ljósmóðir, f. 1922, d. 2008. Börn þeirra eru Guðlaug læknaritari og Ólafur dýralæknir.

Oddgeir og Guðfinna brugðu búi og fluttu á Hvolsvöll 1991.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert