Kostnaðarlækkun apótekslyfja gæti orðið 355 milljónir

mbl.is/Friðrik

Gera má ráð fyrir að kostnaðarlækkun apótekslyfja vegna endurskoðunar geti numið 355 milljónum króna á þessu ári og 410 milljónum króna á næsta ári, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Lyfjagreiðslunefnd.

Nefndin hefur lokið við heildarverðendurskoðun á lyfseðilsskyldum lyfjum sem byggir á meðalverði í fjórum viðmiðunarlöndum, þ.e. Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Verðbreytingar í kjölfar verðendurskoðunar tóku gildi 1. júní, 1. júlí og 1. september síðastliðinn.

Í fréttatilkynningunni segir að ætla megi að sparnaður Sjúkratrygginga Íslands geti orðið 266 milljónir króna og sparnaður sjúklinga 90 milljónir fyrir árið 2009. Fyrir 2010 verði sparnaður Sjúkratrygginga Íslands líklega 307 milljónir króna og sjúklinga 103 milljónir króna.

Jafnframt segir í skýrslunni að erfiðara sé að spá fyrir um raunverulegan sparnað varðandi sjúkrahúslyf vegna mögulegra útboða. Ljóst sé hins vegar að hann sé verulegur eða allt að 143 milljónir króna fyrir 2009 og líklega svipaður á næsta ári. Tölurnar eru reiknaðar á heildsöluverði með vsk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert