Engin formleg svör frá Bretum og Hollendingum

Frá fundi fjárlaganefndar Alþingis. Guðbjartur Hannesson, formaður nefndarinnar, stendur fyrir …
Frá fundi fjárlaganefndar Alþingis. Guðbjartur Hannesson, formaður nefndarinnar, stendur fyrir miðju. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar

„Það er allt í eðlilegum farvegi og engin svör eða neitt komið,“ segir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, spurður út í fund nefndarmanna með sendinefnd íslenskra embættismanna, sem funduðu með breskum og hollenskum embættismönnum í vikunni.

Guðbjartur segir að fundurinn hafi fyrst og fremst verið til upplýsingar, engin formleg viðbrögð frá Bretum og Hollendingum hafi verið kynnt.  „Þetta var allt með kyrrð og spekt.“

Fjárlaganefnd hafi óskað eftir því að fá að fylgjast með gangi mála. „Það var verið að verða við þeirri ósk. Af því þeir höfðu verið úti í gær og í fyrradag, þá þótti eðlilegast að fjárlaganefnd fengi fyrst að heyra að þetta væri í gangi.“

Aðspurður segir Guðbjartur að íslensku embættismennirnir hafi farið út til að veita Hollendingum og Bretum upplýsingar. Hann segir að þingmenn, sem eiga sæti í fjárlaganefnd, hafi ekki beint neinum sérstökum spurningum til sendinefndarinnar. „Við komum ekkert að þessu nema sem eftirlitsaðili,“ segir hann og bætir við að von sé á formlegri tilkynningu frá sendinefndinni.

Fundurinn hófst kl. 12 og lauk rétt fyrir kl. 13. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert