Reiknar með að snúa aftur

Frá starfsmannafundi á Landspítala í dag.
Frá starfsmannafundi á Landspítala í dag. mbl.is/Eggert

,,Þegar maður fer í leyfi þá gerir maður ráð fyrir að koma aftur til starfa. Það hefur ekkert með starfið að gera að ég tek mér leyfi, það eru fyrst og fremst persónulegar aðstæður," sagði Hulda Gunnlagsdóttir, forstjóri Landspítalans, á fundi með fjölmiðlamönnum á Eiríksstöðum, aðalskrifstofu spítalans.

Hún sagði það ekkert hafa með heilbrigðisráðherra að gera að hún taki sér leyfi. Hún væri búin að fá til sín mjög hæft fólk í hverja stjórnunarstöðu og Björn Zoëga, sem mun gegna starfi forstjóra í leyfi Huldu, væri mjög hæfur til að standa í brúnni.

Á fundinum voru kynntar nánar aðgerðir sem spítalinn þarf að ráðast í á þessu ári til að minnka rekstrarkostnað en gerð er krafa um að að sá kostnaður verði lækkaður á þessu ári um 2,8 milljarða. Á fyrstu sex mánuðum ársins náðust 70% af þeirri kröfu ef gengisáhrif eru dregin frá en aðeins um 40% ef þau eru tekin með í reikninginn. Áætlað er að hagræða um 400 milljónir króna á þessu ári en aðgerðirnar verða nánar útfærðar á næstu tveimur vikum. Takist það þá verður rekstrarhalli spítalans um 1,2 milljarðar króna, að meðtöldum gengisáhrifum.

Breyta á sólarhringsdeildum í dagdeildir eða fimm daga deildir. Loka á tveimur skurðstofum, sem ekki liggur fyrir nánar með hvaða hætti verður gert. Lækka á kostnað við innkaup, lækka bifreiðakostnað, tímabundnar ráðningar verða ekki endurnýjaðar, ekki ráðið í störf þeirra sem hætta vegna aldurs. Þá á að lækka menntunar- og símenntunarkostnað og ákveða reglur um breytilega yfirvinnu. Fram kom á fundinum að óljóst er hvort grípa þurfi til einhverra uppsagna. Björn sagði aðgerðirnar koma til að með að bitna á öllum starfsmönnum, með einum eða öðrum hætti. Bæði með minnkandi yfirvinnu, lægri aukagreiðslum eins og fyrir bifreiðakostnað, endurmenntun o.fl.

Samkvæmt sex mánaða uppgjöri Landspítala er halli á rekstrinum 825 milljónir króna en spá fyrir árið gerir ráð fyrir halla upp á samanlagt 1,6 milljarða ef gengisáhrif eru tekin með í reikninginn.

Hulda hélt starfsmannafundi á fjórum stofnunum Landspítalans í morgun þar sem hún kynnti fyrirhugaðar sparnaðaraðgerðir; á Landakoti, Kleppi, í Fossvoginum og að síðustu á Hringbraut. Þar útskýrði Hulda einnig fyrir starfsmönnum af hverju hún ákvað að taka sér ársleyfi frá störfum. Kvaddi hún starfsfólkið að sinni og þakkaði þeim fyrir frábært starf við erfiðar aðstæður.

Hulda Gunnlaugsdóttir.
Hulda Gunnlaugsdóttir. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert