Hlutafélög í hernaði

Bændur hafa stofnað í auknum mæli hlutafélög um búrekstur. Lárus Pétursson landbúnaðarverkfræðingur segir að rekstur bæjanna sé orðinn áþekkur rekstri fyrirtækja og því sé eðlilegt að slíta í sundur heimilisbókhald og rekstur.

Það er ekki þar með sagt að bændarómantík hafi vikið fyrir fyrirtækjamenningu því Lárus segir að búskapur sé ekki gróðabrall heldur lífsstíll. Menn séu tilneyddir til að læra að reka fyrirtæki. Það sé ekki hægt að búa án þess. Þetta haldist í hendur við það að menn hafi orðið að stækka og hagræða til að lifa af.

Lárus hefur teiknað sjö af hverjum tíu fjósum sem hafa verið byggð á undanförnum árum í takt við nýja búskaparhætti, þar sem meira en helmingur kúabænda hefur hætt rekstri og kvótinn safnast á færri hendur.

Hann segir að áhrif hrunsins séu enn ekki komin fram í landbúnaði frekar en víða annars staðar. Það sé ekki mikið farið að ganga að bændum eða öðrum í samfélaginu. Það eigi enn eftir að koma á daginn hversu margir fari illa út úr þessu. Þeir sem hafi fjárfest mest og séu með mestar skuldir á bakinu séu í mestri hættu.

Lárus talar vel um núverandi styrkjakerfi í landbúnaði og segir framleiðslutengda styrki á Íslandi stuðla að hagræðingu öfugt við styrki í mörgum öðrum löndum. Hann segir landbúnað ekki lúta lögmálum hagfræðinnar heldur miklu frekar hernaðar. Hver þjóð sé að verja sína framleiðslu til að halda lífi þegar áföllin dynji á. Stjórnvöld um allan heim séu að styrkja sinn landbúnað og það sé ekkert sem bendi til þess að það breytist mjög mikið á næstu árum.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert