Laun viðskipta- og hagfræðinga hafa hækkað um 8%

Heildarmánaðarlaun viðskipta- og hagfræðinga mælast nú 581 þúsund krónur sem er rúmlega 8% hækkun frá því á sama tíma í fyrra. Hækkun launa er nú talsvert meiri en í síðustu kjarakönnun en þá höfðu laun hækkað um tæplega 4% á milli ára. Laun karla í stéttinni eru 16% hærri en kvenna.

Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) birtir nú niðurstöður úr kjarakönnun félagsins fyrir árið 2009 en félagið hefur gert kjarakannanir reglulega frá árinu 1979. Áður var könnunin gerð á tveggja ára fresti en frá árinu 2007 hefur hún verið framkvæmd árlega.

Niðurstöðurnar byggja á svörum 984 félagsmanna viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Í ár var athugun gerð á því hvort áhrifa efnahagsástandsins gætti á kjör og störf viðskipta- og hagfræðinga og hefur þriðjungur þeirra þurft að sæta kjaraskerðingu.

Kynbundinn launamunur

Þrátt fyrir að konur mælist með lægri laun en karlar hækkuðu laun kvenna nú hlutfallslega meira en laun karla á milli ára. Mánaðarlaun kvenna hækkuðu um 9% og er miðgildi þeirra 547 þúsund krónur.

Laun karla hækkuðu um 6% og er miðgildi þeirra 636 þúsund krónur. Þegar ekki er tekið tillit til annarra þátta mælast karlar með 16% hærri laun en konur. Þetta er þónokkur lækkun frá því árið 2008 en þá mældist óleiðréttur launamunur kynjanna um 20%. Þegar launamunur kynjanna er leiðréttur með tilliti til aldurs, fjölskyldustærðar, menntunar, starfsreynslu, starfsvettvangi og atvinnugeira mælist hann um 3,5%. Þetta er einnig töluverð lækkun frá því í fyrra en þá mældist leiðréttur launamunur 7,5%.

Áhrif efnahagsástandsins

Þrátt fyrir versnandi efnahagsforsendur á undanförnum mánuðum og vaxandi atvinnuleysi í þjóðfélaginu eru einungis tæplega 3% viðskipta- og hagfræðinga atvinnulausir samkvæmt niðurstöðum þessarar könnunar. Þó hafa 34% svarenda þurft að taka á sig tekjuskerðingu og telja 42% þátttakenda að mjög erfitt eða erfitt væri að finna sambærilegt starf og kjör og þeir hafa í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert