Segja engar vísbendingar um brot á reglum um kjöt

Matvælaeftirlit Reykjavíkur segist ekki hafa fundið nein merki að um að hrossakjöti, svínafitu eða kartöflumjöli sé blandað saman við nautgripahakk án þess að getið sé um slíkt á pakkningum. Merki um slíkt hafi hvorki fundist í kjötvinnslum í Reykjavík né verslunum.

Þórarinn Jónsson, bónda á Hálsi í Kjós, sagði í viðtali við Mbl Sjónvarp í gær að víða sé þyngdaraukandi og vatnsbindandi efnum blandað í nautahakk. Þá sé það opinbert leyndarmál að það sé bætt hrossakjöti, svínafitu, kartöflumjöli og öðru því sem mönnum detti í hug, saman við nautahakk.

Matvælaeftirlitið segir að í reglugerð um kjöt og kjötvörur sé kveðið á um að þegar um sé að ræða hreinar kjötvörur. Sé vísað er til ákveðinnar kjöttegundar í heiti vöru, að þá skuli varan eingöngu innihalda kjöt og fitu af þeirri kjöttegund s.s. nautgripahakk. Heimilt sé að blanda saman kjöttegundum í hakki en þá skulu kjöttegundir og magn hverrar tegundar koma fram í prósentum í innihaldslýsingu.

Ef um sé að ræða blandað hakk án kjöttegunda í heiti verði framleiðandinn að merkja öll innihaldsefni. Aukefni sem gætu verið í slíku hakki skuli merkja með flokksheiti þess og viðurkenndu heiti eða flokksheiti og E-númeri. Ef próteingjafar eru notaðir og magn þeirra er yfir 3% verður að merkja magn þeirra í innihaldslýsingu.

„Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga annast eftirlit með framleiðendum. Matvælaeftirlit í landinu tekur allar yfirlýsingar um brot á íslenskri matvælalöggjöf alvarlega og rannsakar slíkar ábendingar. Matvælaeftirlit Reykjavíkur hefur í dag reynt að fá upplýsingar um meint brot á reglum um kjötvörur. Engar vísbendingar hafa fengist um þessi brot," segir í tilkynningu frá stofnuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert