Fréttaskýring: Lúpínan erfið í Rauðhólum og Laugarási

Garðyrkjudeild borgarinnar hefur á undanförnum árum ráðist gegn útbreiðslu lúpínu á tveimur stöðum í borgarlandinu. Annars vegar við Rauðhóla og hins vegar efst í Laugarásnum. Á þessum stöðum hefur lúpínan þó ekkert gefið eftir og jafnharðan hefur sótt í sama farið. Skógarkerfill hefur gjarnan farið í kjölfar lúpínunnar og er hann sérstaklega áberandi í Esjuhlíðum en einnig í hluta Vatnsmýrarinnar og víðar.

»Í Rauðhólunum var gert átak gegn lúpínunni og plantan hreinlega fjarlægð,« segir Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri borgarinnar. »Það er kominn tími til að fara að nýju í slíkt átak. Lúpínan er ekki enn þá farin að sækja mikið inn í sjálfa hólana og því er enn möguleiki á að koma í veg fyrir að hún taki þá yfir.

Efst í Laugarásnum er friðað náttúruvætti, þar eru merki um hæstu sjávarstöðu í borginni. Meðal annars vegna þess höfum við reglulega slegið lúpínuna í Laugarásnum, en hún hefur ekkert látið undan síga við þessar aðgerðir. Hins vegar verður þróunin sú að lúpínan mun gefa eftir fyrir öðrum gróðri og birkið er þegar farið að sá sér þarna,« segir Þórólfur garðyrkjustjóri.

Haft var eftir Þóru Ellen Þórhallsdóttur, grasafræðingi og prófessor við HÍ, í Morgunblaðinu í vor að alaskalúpínan væri tvímælalaust sú jurt sem lífríki Íslands stafaði mest ógn af. Hún sagði lúpínuna besta dæmið um framandi plöntu sem breiðst hefði út í íslensku lífríki. Þar kom fram að sums staðar þar sem hún er búin að vera í 30-40 ár eru engin merki um að hún sé að hörfa.

Aðspurður hver þróunin verði með skógarkerfil segir Þórólfur, að ekki séu ýkja mörg ár síðan hann fór að ryðja sér til rúms hérlendis. Því vanti fleiri ár til að hægt sé að átta sig á heildarmyndinni, en lúpína á höfuðborgarsvæðinu virðist fara að hörfa eftir 15-20 ár. Ljóst sé að kerfill sæki í svæði þar sem gott næringarástand sé í jarðvegi, t.d. gömul tún sem áburður hafi áður verið borinn á og í svæði sem lúpínan hafi verið á.

»Okkur vantar einfaldlega upplýsingar um hvort kerfillinn verður svona aðgangsharður á þessum svæðum í 10, 20 eða jafnvel 30 ár,« segir Þórólfur. »Kerfillinn kemur hingað til lands frá Skandinavíu og þar er hann ekki talinn ágeng planta, en í Ameríku er kerfillinn flokkaður með illgresi.«

Mikil útbreiðsla í brekkum

Þórólfur segir að hlýrra loftslag eigi þátt í útbreiðslu lúpínu og kerfils, en fleira spili þar inn í, til dæmis breyttir búskaparhættir. Lúpína var áberandi í sumar á höfuðborgarsvæðinu og brekkur og hlíðar báru víða fjólubláan einkennislit lúpínu.

Útbreiðsluhraði lúpínu á flatlendi er oft einn til tveir metrar á ári þar sem vaxtarskilyrði eru. Í brekkum getur útbreiðsluhraðinn hins vegar verið helmingi meiri og í skorningum farið yfir tíu metra á ári. Talið er að útbreiðsla lúpínu muni aukast á Hólmsheiði og víðar austur af borginni á komandi árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert