Vill að viðtölum verði eytt

Helgi Felixson, höfundur heimildarmyndarinnar Guð blessi Ísland, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi farið fram á það að allar myndir og viðtöl sem tekin voru við hann vegna myndarinnar, verði klippt út úr myndinni og þeim eytt. 

Fram kom, að ástæðan væri að Helgi notar m.a. myndefni af Jóni Ásgeiri, sem var tekið upp án þess að hann vissi að myndavélin væri í gangi. Helgi sagði í Kastljósinu að það virtist vera þannig, að þegar fólk hefði ekki fulla stjórn þá færi ýmislegt úrskeiðis.

„Ég hef valið þessa leið vegna þess að mér finnst hún gefa betri mynd af sannleikanum en ýmislegt annað sem kemur fram í þessum beinu viðtölum. Þá getur það að sjálfsögðu verið deilumál hvað má eða má ekki. En ég hef farið þessa leið og stend alveg fyrir því," sagði Helgi.

Fram kom, að Helgi hefði gert samninga við viðmælendur sína en sagðist ekki telja að hann væri að brjóta þá samninga. Hann tók einnig viðtöl við Bjarna Ármannsson og Björgólf Thor Björgólfsson en ekki enn sýnt þeim hvernig hann meðhöndlaði myndefni sem hann tók upp. 

Til stendur að frumsýna myndina í Háskólabíói 6. október þegar ár er liðið frá því neyðarlögin voru sett. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert