Grunur um fjölda brota

Starfsmenn embættis sérstaks saksóknara fóru í morgun í húsakynni endurskoðunarfyrirtækjanna PricewaterhouseCoopers og KPMG og lögðu hald á gögn sem tengjast endurskoðun á reikningsskilum Landsbanka Íslands, Glitnis og Kaupþings og dótturfélögum þeirra.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti sérstaks saksóknara liggur m.a. athugun fransks endurskoðanda á ársreikningum bankanna til grundvallar húsleitunum og til rannsóknar sé m.a. grunur um skjalabrot, auðgunarbrot, brot gegn lögum um bókhald og ársreikninga, brot gegn lögum um fjármálafyrirtæki og verðbréfaviðskipti og loks brot gegn hlutafélagalögum. 

Tilgangur húsleitanna var að leita að og leggja hald á sönnunargögn í þágu rannsókna á ýmsum sakarefnum sem þegar hafa verið tekin til rannsóknar af hálfu embættisins. 

Aðgerðirnar voru víðtækar og hófust með leit á tveimur endurskoðunarskrifstofum kl. 10  í morgun. Alls tóku 22 manns þátt í aðgerðunum í dag. Auk starfsmanna embættisins tóku þátt í húsleitunum lögreglumenn frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þ.á m. sérfræðingar í haldlagningu og meðferð rafrænna gagna og sex erlendir sérfræðingar á sviði endurskoðunar.

Reynir Vignir, framkvæmdastjóri PricewaterhouseCoopers, segir að lögð sé áhersla á að vinna sem best með embættinu og starfsmönnum þess séu afhent öll umbeðin gögn.

Bæði PricewaterhouseCoopers og KPMG fullyrða, að húsleitirnar beinist ekki að endurskoðunarfyrirtækjunum sjálfum heldur ákveðnum viðskiptavinum þeirra.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert