Guðfríður Lilja hafnaði

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kemur á þingflokksfund VG í gær.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kemur á þingflokksfund VG í gær. mbl.is/Ómar

Atli Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði í morgunþætti Bylgjunnar í morgun, að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefði verið fyrsti kostur í embætti heilbrigðisráðherra. Hún hefði hafnað því á þeim forsendum að hún gæti ekki tekið við embætti af Ögmundi af sömu ástæðum og hann tilgreindi fyrir afsögn sinni.

Ögmundur sagði, eftir að hann baðst lausnar í gær, að það væri  eindreginn vilji til þess í stjórnarráðinu að menn töluðu einum rómi í Icesave-málinu, að hugsanlegar breytingar á skilmálum Alþingis frá í sumar komi fram í stjórnarfrumvarpi, sem allir ráðherrar standi að.

Atli sagði, að Guðfríður Lilja hefði verið augljós fyrsti kostur í ráðherraembættið þar sem hún leiddi lista VG í stóru kjördæmi og vann kosningasigur.

Fram kom hjá Atla, að þingflokkur VG hefði verið sammála um að haldið yrði áfram samningum við Breta og Hollendinga. Steingrímur J. Sigfússon hefði umboð til að semja en það réðist síðan af niðurstöðunni hver afstaða nokkurra þingmanna flokksins, þar á meðal Atla og Ögmundar, yrði til lagafrumvarps, sem væntanlega kæmi fram í kjölfarið.

Lilja Mósesdóttir, sem stödd er á fundi Evrópuráðsþingsins í Strassborg, lýsti í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi fullum stuðningi við þá kröfu Ögmundar „að viðbrögð Breta og Hollendinga við fyrirvörunum fari fyrir þingið og að þingið taki afstöðu til þeirra og að við ljúkum því lýðræðislega ferli sem hófst í sumar“, sagði hún. Lilja ætlaði að greina flokkssystkinum sínum frá afstöðu sinni í gegnum síma á þingflokksfundinum í gærkvöldi.

„Ef á núna að fara í gamla hjólfarið og tryggja meirihluta fyrir einhverjum breytingartillögum ríkisstjórnarinnar, þá er það eins og við séum að gefast upp á miðri leið í því lýðræðislega ferli sem við byrjuðum á í sumar. Ég get ekki séð að það sé það mikil nauðsyn á að ljúka þessu hér og nú,“ segir Lilja.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert