Vill fund um Icesave án tafar

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sent forsætisráðherra og fjármálaráðherra bréf vegna Icesave-málsins og óskar eftir því að haldinn verði fundur án tafar þar sem upplýst verði hvaða áform ríkisstjórnin hefur uppi varðandi lyktir Icesave-deilunnar gagnvart stjórnvöldum í Bretlandi og Hollandi.

„Ég óska eftir því fundurinn eigi sér stað nú þegar og alls ekki eftir að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa undirritað samkomulag eða viljayfirlýsingu um lausn deilunnar við Bretland og Holland, hafi ríkisstjórnin uppi áform um slíkt.

Þetta tel ég mikilvægt í ljósi þeirrar atburðarrásar sem í hönd fór eftir að ríkisstjórnin staðfesti samkomulag við Bretland og Hollands án stuðnings Alþingis. Einnig og ekki síður er þetta mikilvægt í ljósi þess að Alþingi Íslendinga hefur þegar tekið ákvörðun um með hvaða hætti Icesave-málið skuli til lykta leitt. Sú ákvörðun hefur verið lögfest og gildir sem lög í landinu," segir í bréfi Bjarna.

Óeðlilegur þrýstingur og tímapressa

„Ef við skoðum það sem er að gerast í þessari viku þá er einn ráðherra að víkja úr ríkisstjórninni og annar þingmaður vinstri grænna neitar að taka sæti í ríkisstjórn, vegna þess sem er að gerast á bak við tjöldin. Þetta fær mann auðvitað til að hafa verulegar áhyggjur af því að það standi til að binda endahnútinn á viðræður við Breta og Hollendinga, undir einhverjum óeðlilegum þrýstingi og í einhverri tímapressu,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert