Um 300 til 400 ný störf hjá Ístaki

Eftir undirskrift viljayfirlýsingarinnar um samstarf um byggingu einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ. …
Eftir undirskrift viljayfirlýsingarinnar um samstarf um byggingu einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ. Frá vinstri: Kolbeinn Kolbeinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Ístaks, Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaCare, Sigríður Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður PrimaCare, og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. mbl.is/Hilmar

Talsmenn Ístaks hf. gera ráð fyrir að 300 til 400 starfsmenn fyrirtækisins komi að byggingu einkasjúkrahússins og hótelsins í Mosfellsbæ, en stefnt er að því að framkvæmdir hefjist næsta vor.

Kolbeinn Kolbeinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Ístaks, segir að fyrirtækið hafi þurft að fækka starfsmönnum, en þetta verkefni blási nýju lífi í starfsemina. Við byggingu Háskólans í Reykjavík starfi nú um 300 manns og gera megi ráð fyrir að sambærilegan fjölda eða fleiri þurfi við nýju bygginguna í Mosfellsbæ.

Mosfellsbær, PrimaCare ehf. og Ístak skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um byggingu einkasjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ sem mun sérhæfa sig í mjaðmaliða- og hnjáaðgerðum fyrir útlendinga. Um er að ræða allt að 20-30 þúsund fermetra byggingar og munu skapast 600-1000 störf í bæjarfélaginu. Gert er ráð fyrir að verkefnið kosti 13-20 milljarða króna en fjármögnun þess er í höndum svissnesks fjármögnunarfyrirtækis, Oppenheimer Investments AG. Samkvæmt áætlunum fyrirtækisins er gert ráð fyrir að fyrstu sjúklingarnir verði komi til aðgerða í árslok 2011.

Aðild Ístaks að verkefninu felst í því að fyrirtækið hefur látið PrimaCare í té lóð við Köldukvíslargljúfur við Tungumela í Mosfellsbæ og mun jafnframt koma að byggingu sjúkrahússins í samvinnu við alþjóðlega byggingaverktakann Skanska, sem hefur yfirumsjón með verkinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert