Mótmæltu reglum ESB um hvíldartíma

Fimmtán flugmenn dreifðu miðum til farþega á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli milli 5:30 og 7 í morgun þar sem regluverki Evrópusambandsins um flug-, vakt- og hvíldartíma flugáhafna, sem tók gildi síðustu áramót, var mótmælt.

Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), segir að við mótun reglugerðarinnar hafi Evrópusambandið kallað til vísinda- og læknanefnd til að aðstoða við útfærslu reglugerðarinnar. „Þegar til kastanna kom voru ráðleggingarnar hunsaðar. Þegar uppi er staðið er reglugerðin þess efnis að menn geta gengið ansi langar vaktir án þess að brjóta reglur og þannig storkar örygginu,“ segir Kjartan.

Í dag er útkallsdagur ECA (Evrópusambands flugmanna) og fara aðalmótmælin gegn reglugerðinni fram við Evrópuþingið í Brussel. „Það voru síðan tilmælin um að öll aðildarfélög ECA myndu hópast á helstu flugvöllum Evrópu með kynningarefni,“ segir Kjartan. Hann tekur fram að aðgerðirnar beinist ekki gegn flugrekendum eins og t.d. Flugfélagi Íslands og Icelandair sem eru með hvíldartímaákvæði sem eru mun þrengri en nýja reglugerðin og uppfylla allar kröfur vísindanefndarinnar. „Það eru hinsvegar lággjaldafélögin sem fljúga út á ystu mörk í öllu til að halda kostnaði niðri. Þau fara eftir nýju reglugerðinni og þar er álitið að hættan sé mest.“

Í tilkynningu frá FÍA segir m.a.:

Nokkur atriði til umhugsunar úr gildandi reglugerð:

• Tveir flugmenn mega vera á vakt í 14 klst að degi til – þ.e. við stjórnvölinn við stýrin á flugvél í allt að 13 klst.

Vísindanefndin telur þetta of mikið og beri að minnka.

• Næturvakt flugmanna (vakt hefst milli kl. 22 og 04:59) má vera 11:45.

Vísindanefnd telur að þetta eigi að vera að hámarki 10 klst.

• Samanlagður vakttími í hverri viku má vera 60 klst. Þetta þýðir 180 klst á 21 degi.

Vísindanefndin telur þetta of mikið. Mælt er með takmörkun sem nemur 100 klst vakttíma á hverjum 14 dögum.

• Bakvaktir (þar sem flugmaður er reiðubúinn til útkalls með litlum fyrirvara) takmarka ekkert lengd flugvaktar. Þ.e. flugmaður sem búinn er með t.d. 12 klst bakvakt getur í lok hennar farið beint á hámarksvakt samkvæmt reglugerð (max 14 klst).

Vísindanefndin telur eðlilegt að bakvaktin takmarki hámarksvaktina ef til útkalls kemur.

Myndskeið um þreyttar flugáhafnir má finna hér.

Frá Leifsstöð í morgun
Frá Leifsstöð í morgun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert