Jón lætur þýða spurningalistann

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra. Kristinn Ingvarsson

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið láta þýða öll helstu gögn varðandi aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið tengd þeim málaflokkum sem ráðuneytið ber ábyrgð á. Jón ætlar að láta kanna hvort hægt er að vinna við þýðingar  að hluta til úti á landi.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé tiltekið að hún muni beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum.

"Í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar með tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu kemur skýrt fram, að meirihlutinn telji einnig mikilvægt að aðkoma hagsmunaaðila að málinu og upplýsingamiðlun sé skýr og skilvirk á öllum stigum. Meirihlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að ferlið sem sett verður upp í tengslum við aðildarviðræður, verði eins gegnsætt og kostur er og að sem víðtækast samráð verði haft við hagsmunaaðila á breiðum grunni, auk þess sem sérstök áhersla verði lögð á upplýsingamiðlun til almennings."

Jón Bjarnason hefur áður lýst því yfir að hann sé sammála Bændasamtökum Íslands og öðrum þeim sem telja nauðsynlegt að bæði spurningar og svör og önnur þau málefnalegu gögn sem lúta að umsókninni um aðild að Evrópusambandinu, verði birt samhliða á íslensku.

Utanríkisráðuneytið hafnaði fyrir nokkrum vikum erindi frá Bændasamtökunum sem óskað höfðu eftir að fá afhenta íslenska útgáfu spurningalista framkvæmdastjórnar ESB. Ráðuneytið sagði í svarbréfi að það hefði ekki í hyggju að leggja í þýðingu spurningalistans og bar m.a. fyrir sig kostnaði sem ráðuneytið áætlaði að væri um 10 milljónir króna og verkið tæki 2-3 mánuði að vinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert