Mikill niðurskurður í hreinsun á veggjakroti

Unnið að hreinsun veggjakrots á Laugaveginum
Unnið að hreinsun veggjakrots á Laugaveginum

Reykjavíkurborg ver nú mun minna fé í að hreinsa veggjakrot eða 61 milljón króna í ár samanborið við 156 milljónir króna í fyrra. Þetta kemur fram í svari borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, við fyrirspurn Samfylkingarinnar um veggjakrot.

Tilefni fyrirspurnarinnar var að ábendingar berast nú úr flestum hverfum um að veggjakrot hafi aldrei verið meira. Í svarinu kom fram að meira en helmingi minna fé er nú varið í baráttuna gegn veggjakroti en í fyrra.

Fulltrúar Samfylkingarinnarinnar létu því bóka eftirfarandi:
„Líkt og svör borgarstjóra bera með sér hafa fjármunir til aðgerða gegn veggjakroti verið skornir niður úr 156 milljónum króna í 61 milljón króna milli áranna 2008 og 2009. Enginn þáttur borgarrekstarins hefur verið skorinn jafnmikið niður. Á sama tíma hefur veggjakrot aukist og hefur líklega aldrei verið meira í borgarlandinu.

Þetta vekur spurningar um stefnu og yfirlýsingar meirihlutans um „stríð gegn veggjakroti” þar sem fjölmiðlar voru oftar en ekki kallaðir og beðnir að mynda borgarstjóra við þrif. Reynsla nágrannaþjóða bendir til þess að slíkar stríðsyfirlýsingar séu einna verst fallnar til að ná árangri og draga úr veggjakroti nema í algjörum undantekningatilfellum þegar þess sé sérstaklega gætt að orðum sé fylgt fast eftir með mannafla og fjármunum. Því miður virðast áherslur meirihlutans því helst vera fallnar til þess að auka veggjakrot fremur en að draga úr því."  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka