Mikið um flensu í grunnskólum

Reuters

Fimmtíu nemendur hafa tilkynnt veikindi í grunnskólanum á Fáskrúðsfirði en talið er að svínaflensa hafi komið upp í skólanum. Skólastjórinn liggur einnig veikur heima en að sögn Eyglóar Aðalsteinsdóttur aðstoðarskólameistara stendur til að taka sýni hjá veikum nemendum til að ganga úr skugga um eðli veikindanna. 

101 nemandi er í grunnskóla Fáskrúðsfjarðar og því aðeins helmingur nemendanna í skólanum. „Það er ekki hægt að segja til um hvort þetta er svínaflensa eða annað en þetta virðist vera bráðsmitandi,“ segir Eygló.

30% nemenda veikir í Oddeyrarskóla 

„Toppurinn var í gær en þetta byrjaði í síðustu viku,“ segir Rannveig Sigurðardóttir, skólastjóri Oddeyrarskóla á Akureyri. Um 30% nemenda Oddeyrarskóla á Akureyri hafa tilkynnt um veikindi eða 60 nemendur og er það óvenjumikill fjöldi. Ekki hefur verið staðfest hvort um svínaflensu er að ræða að sögn Rannveigar en í mörgum tilfellum er um háan hita, hósta og flensulík einkenni að ræða. 

Þrettán nemendur tilkynntu um veikindi í grunnskólanum á Breiðdalsvík í gær en ekki hefur bæst við þann fjölda að sögn starfsmanns skólans. 

Hægt er að fá upplýsingar um einkenni og viðbrögð vegna svínaflensu á heimasíðu Landlæknisembættisins influensa.is.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert