Fréttaskýring: Gríðarlegur vöxtur framundan á Ásbrú

Enn bættist í flóru fjölbreyttra verkefna á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, Ásbrú, í vikunni þegar tilkynnt var um áform hollenska fyrirtækisins ECA um viðhalds- og æfingastöð í gamla flugskýli bandaríska hersins. Hingað koma 18 vopnlausar orustuþotur af Sukhoi-gerð sem nýtast munu herjum NATO-ríkjanna til æfinga.

Búist er við að ECA á Íslandi muni á næstu árum skapa 150-200 störf og kostnaður við umbreytingu á húsnæði og annarrar uppbyggingu nemur um 4,5 milljörðum kr.

Starfsemi ECA bætist við gagnaver Verne Global, háskólann Keili og tengdar rannsóknir á ýmsum sviðum, heilsusjúkrahús Iceland Health, kvikmyndaver og fjölmörg önnur verkefni sem eru í gangi á svæðinu og utan þess, s.s. álver, virkjanir og kísilflöguverksmiðju. Reiknað er með að gagnaverið skapi allt að 100 störf og sjúkrahúsið um 300, þegar sú starfsemi verður komin á fullan skrið eftir tvö ár. Framkvæmdir við gagnaverið eru þegar hafnar en aðeins á eftir að ganga frá fjárfestingarsamningi við stjórnvöld, sem er á lokastigi. Þegar hefur verið samið við fyrsta viðskiptavininn, IBM, um að hýsa hér umfangsmikil gögn.

Byrjað er á að undirbúa starfsemi sjúkrahússins og á það að taka til starfa í september 2010.

Tugmilljarða fjárfestingar

Frá því að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, tók yfir allar byggingar hersins fyrir tveimur og hálfu ári, með það að markmiði að koma þeim í notkun, hafa 450 störf skapast á Ásbrú. Að sögn Kjartans Þ. Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Kadeco, má reikna með að 1.200-1.300 ný störf skapist á næstu þremur árum. Fjárfestingar við öll þessi verkefni skipta tugum milljarða króna og fyrir ríkið, eiganda Kadeco, er þetta svæði þegar farið að skila tekjum með sölu á fasteignum og annarri aðstöðu.

Um síðustu áramót námu tekjur umfram gjöld um 1,5 milljörðum króna og er búist við að upphæðin verði komin í þrjá milljarða í árslok. Takist að selja allar eignir og auka verðgildi þeirra býst Kadeco við að skapa ríkinu tekjur upp á 10 milljarða króna nettó. Hafa þessir fjármunir ríkisins ekki komið til baka á Ásbrú heldur runnið inn í sameiginlegan sjóð allra landsmanna.

„Þó að við höfum rekist á ýmsar tæknilegar hindranir þá höldum við ótrauð áfram. Vissulega hafa sum verkefni tafist vegna fjármálakreppunnar, við höfum náð að byggja hér upp mjög góða innviði. Hér eru í gangi stærstu sprotaverkefni landsins, risastór verkefni sem munu skapa fjölda nýrra starfa.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert