Götuvændi stundað í Reykjavík

Erlendis er götuvændi víða algengt.
Erlendis er götuvændi víða algengt.

Sterkar vísbendingar eru um að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt hér á landi. Segist greiningardeild ríkislögreglustjóra búa yfir staðfestum upplýsingum þess efnis að götuvændi sé stundað í Reykjavík.

Í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra hefur á undanförnum tveimur árum eða svo ítrekað verið fjallað um vaxandi umsvif skipulagðra glæpahópa á Íslandi og vakin athygli á því að innlendir og erlendir glæpahópar láti í vaxandi mæli til sín taka hér á landi. Jafnframt hefur verið vakin athygli á auknu samstarfi slíkra hópa á vettvangi skipulagðrar glæpastarfsemi. Ríkislögreglustjóri segist nú telja ástæðu til að ítreka þessi varnaðarorð.

Þá segir embættið að fyrirliggjandi upplýsingar bendi til þess að vændi færist í vöxt í höfuðborginni. Einkum sé þar um að ræða erlendar konur sem í mörgum tilvikum séu fluttar hingað til lands gagngert í þessum tilgangi. Starfsemi sem þessi sé oftar en ekki þaulskipulögð og krefjist samvinnu hópa og einstaklinga. Oft feli hún í sér nauðung, hótanir, ofbeldi  og mansal. Aukið vændi, auk skipulagðra innbrota og þjófnaða, sé því ein gleggsta birtingarmynd þess að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt á Íslandi.

Mál litháískar konu, sem lögreglan á Suðurnesjum hefur haft með höndum undanfarna daga, virðist vera dæmi um þetta. Konan kom til landsins fyrir viku og segir lögreglan að grunur leiki á að hún hafi verið flutt til landsins sem fórnarlamb mansals. Hún dvaldi á sjúkrahúsi eina nótt en síðan hjá lögreglunni á Suðurnesjum að eigin ósk. Hún sagðist ekki eiga í nein hús að venda og engan þekkja hér á landi og gat litlar skýringar gefið á ferð sinni hingað til lands.

Konan hvarf síðan að kvöldi mánudags en var handtekin um miðnættið í nótt í Reykjavík eftir að Suðurnesjalögreglan lýsti eftir henni. Þrír Litháar hafa verið handteknir vegna málsins og sitja þeir í gæsluvarðhaldi.

Götuvændið enn takmarkað

Greiningardeild embættisins segist búa yfir óvefengjanlegum upplýsingum þess efnis að götuvændi sé iðkað í Reykjavík. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um umfang þessarar starfsemi en vísbendingar eru þó um að hún sé takmörkuð.

Í höfuðborgum nágrannalandanna hafa erlendar vændiskonur, sem leita viðskiptavina á götunni, valdið margvíslegum vanda á undanliðnum árum. Þar er um að ræða þaulskipulagða glæpastarfsemi sem erlendir glæpaflokkar halda einkum uppi, oft með aðstoð heimamanna Greiningardeildin varar við því að svipað ástand kunni að skapast í Reykjavík verði ekki brugðist við þróun þessari á upphafsstigum hennar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert