Starfsemi Fosshótels Baróns óbreytt

Fosshótel ehf. segja að starfsemi Fosshótels Baróns við Barónstíg verði eðlileg þar til dómur Hæstaréttar fellur um útburðarkröfu fyrrum eiganda húsnæðisins. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á kröfu Neskjara ehf. um að Fosshótel skuli borin út úr húsinu.

Í yfirlýsingu Fosshótela segir, að því hafi verið ranglega haldið fram í dag,  að fyrirtækið geti ekki fjármagnað kaupin á þeirri fasteign sem málið varðar.  Hið rétta sé að Landsbankinn (NBI) samþykki ekki yfirtöku lána á meðan Neskjör ehf. banni umferð um lóðina Skúlagötu 36 en ekki sé hægt að komast að aðalinngangi og móttöku hótelsins nema um lóðina. Landsbankinn geri kröfu um að rekstur hótelsins sé tryggður með aðgengi að aðalinngangi hótelsins, þar sem rekstur hótelsins standi undir fjármögnun á áhvílandi lánum við bankann.

Þá segir að úrskurður héraðsdóms verði kærður til Hæstaréttar og þar til niðurstaða réttarins liggi fyrir verði engar breytingar á daglegum rekstri hótelsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert