Kvóti verði tengdur byggðunum

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason. mbl.is/Ómar

Guðrún Erlingsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra að því á þingi í dag hvort til skoðunar væri að tengja kvóta við tilteknar sjávarbyggðir þannig að fiskvinnslufyrirtæki geti keypt kvóta án framsalsheimildar til nýtingar í heimabyggð. 

Að mati Guðrúnar fylgir núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi mikið óöryggi í sjávarbyggðunum. Tryggja þurfi betur atvinnuöryggi í sjávarplássum þannig að ekki sé sama hætta á að kvóta verði siglt í burtu. Brýnt sé að vinna aflann í heimabyggð.

Fiskveiðistjórnunarkerfið sé í endurskoðun og vinna sáttanefndar í gangi.

Jón Bjarnason minnti í svari sínu á að markmið laga um stjórnun fiskveiða væri að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskistofna, og tryggja með því trausta byggð og atvinnu í landinu.

Minna þyrfti á að nokkur mál væru í gangi á vegum stjórnarinnar sem ynnu að þessu markmiði. Línuívilnun og landbeitingu verði gert hærra undir höfði. Þá beri að nefna byggðakvótann, sem sé þó ekki neinn „óskadraumur“, strandveiðarnar sem hafnar voru í sumar og svo svæðistengdar veiðar sem ætlað er að styrkja stöðu þeirra sem skemmsta leið eiga á miðin.

Kvaðst ráðherrann taka heilshugar undir það mikla öryggisleysi sem sjávarbyggðir hafa búið við, að geta staðið frammi fyrir því að á einni nóttu geti þær aflaheimildir sem hafi staðið undir atvinnulífinu á viðkomandi stöðum verið seldar á brott úr byggðalaginu.

Að mati Jóns hefur útgerðin gríðarlega „samfélagslega ábyrgð“ en hann telur einnig að tryggja þurfi samfélagslega sjálfbærar veiðar.

Hann hafi lagt á það áherslu á fundum með bankastjórum allra viðskiptabankanna að vandlega sé gætt að því að þær aðgerðir sem gripið er til verði ekki til að raska atvinnuöryggi í sjávarbyggðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert