Ríkisstjórnin standi við fyrirheit

Frá ársfundi Alþýðusambands Íslands.
Frá ársfundi Alþýðusambands Íslands.

Ársfundur Alþýðusambands Ísland krafðist þess í ályktun í dag, að ríkisstjórnin beiti sér af fullum þunga fyrir framgangi stöðugleikasáttmálans og standi við gefin fyrirheit.

Lýsti fundurinn yfir miklum vonbrigðum með vanefndir ríkisstjórnarinnar og sagði að það væri með öllu óviðunandi að ráðherrar ríkisstjórnarinnar fari gegn sáttmálanum eins og umhverfisráðherra gerði með nýlegri ákvörðun sinni um Suðvesturlínu og komi þannig fjárfestingum og nýsköpun í frekara uppnám.

Þá lýsti ársfundurinn yfir áhyggjum sínum af áformuðum skattahækkunum á heimili og fyrirtæki og sagði mikilvægt að umfang skattahækkana verði ekki meira en kveðið séá um í Stöðugleikasáttmálanum. Þá krafðist fundurinn þess að staða þeirra tekjulægstu verði varin og að umsamin hækkun persónuafsláttar komi til framkvæmda. Auk þess taldi fundurinn mikilvægt að þess verði gætt að áform um orku- og auðlindagjöld verði útfærð með þeim hætti að áformum um fjárfestingar verði ekki stefnt í voða.

Ársfundurinn taldi mikilvægt að kjarasamningar haldi gildi sínu þannig að þær kjarabætur sem að óbreyttu eigi að koma til framkvæmda 1. nóvember 2009 og 1. júní 2010 skili sér til launafólks. 

„Ársfundurinn bendir á að aukin verðmætasköpun er eina færa leiðin út úr efnahagsvandanum. Verkalýðshreyfingin undirritaði Stöðugleikasáttmála í sumar sem hafði það markmið að stuðla að endurreisn efnahagslífsins með því að skapa skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu, nýrri sókn í atvinnumálum, auknum hagvexti og leggja þannig grunn að bættum lífskjörum til framtíðar," segir m.a. í ályktun um kjaramál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert