Almenn bólusetning í nóvember

Almenn bólusetning vegna svínaflensu hefst síðari hluta nóvember.
Almenn bólusetning vegna svínaflensu hefst síðari hluta nóvember.

Horfur eru á að unnt verði að hefja almenna bólusetningu við inflúensunni A(H1N1) fyrr en gert var áður ráð fyrir, þ.e.a.s. í síðari hluta nóvember í stað desember. Ástæðan er sú að meira berst af bóluefni til landsins næstu daga og vikur en reiknað var með í upphaflegum áætlunum.

Búið er að bólusetja yfir 20.000 af alls um 75.000 manns sem miðað er við að séu í skilgreindum forgangshópum bólusetningar samkvæmt tilmælum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO. Fari svo sem horfir verður lokið að mestu við að bólusetja fólk í þessum forgangshópum um miðjan nóvember, þ.e.a.s. starfsfólk í heilbrigðisþjónustu, öryggisþjónustu og lykilhlutverkum af ýmsu tagi í opinberri stjórnsýslu, og sjúklinga með „undirliggjandi sjúkdóma".

Sóttvarnalæknir segir, að engar fréttir hafi borist af alvarlegum aukaverkunum bólusetningar. Sumir hafi fengið þrota eða roða í húð á stungustað. Segir í tilkynningu frá sóttvarnalækni að þetta sé einfaldlega kröftug ónæmissvörun líkamans og jákvæð staðfesting á að bóluefnið sé öflugt og skilvirkt.

Þá benda bráðabirgðaniðurstöður rannsókna á bóluefninu eindregið til þess að einn skammtur veiti hámarksvörn gagnvart inflúensunni. Sóttvarnalæknir telji því fullnægjandi að menn láti bólusetja sig einu sinni en segir að berist vísbendingar um annað í einhverjum tilvikum verði birtar upplýsingar eða tilmæli um að tilteknir hópar láti bólusetja sig í annað sinn.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert