Líklegt að hlaup verði í Jökulsá í Fljótsdal

Jökulsá á Fljótsdal.
Jökulsá á Fljótsdal. mbl.is/Steinunn

Háöldulón vestan við Eyjabakkajökul hefur fyllst af vatni á undanförnum 2 vikum. Landsvirkjun segir líklegt, að það leiði til hlaups í Jökulsá á Fljótsdal á næstunni. Mannvirki Landsvirkjunar á svæðinu eu hönnuð með tilliti til slíks atburðar og eru ekki í hættu.

Lítil jökulhlaup koma stundum í Jökulsá í Fljótsdal úr Háöldulóni. Það myndast í lægð í krikanum vestan við Eyjabakkajökul. Á leysingatímum rennur nafnlaus jökulkvísl þar um. Jökullinn myndar oft stíflu fyrir lægðina svo að þar myndast uppistöðulón.

Þegar Háöldulón nær ákveðinni stærð brýst vatnið undir ísinn og veldur hlaupi. Hlaupvegalengdin undir jökli frá Háöldulóni er um 7 km. Íshellir í Eyjabakkajökli er farvegur hlaupanna. Mannvirkjum á ekki að vera hætta búin og yfirfallið á Ufsarlóni á auðvellega að geta tekið við hlaupvatninu þegar og ef hlaup fer af stað. Lónið er mjög lítið að rúmmáli núna þar sem jökullinn hefur hopað mikið á undanförnum árum. Af þeim sökum er ekki talið að um stórt hlaup verði að ræða.

Eyjabakkajökull er skriðjökull sem hlaupið hefur fram með nokkurra áratuga millibili. Síðasta framhlaupið var 1972-1973 þegar brúnin færðist fram um að meðaltali um 2 km. Talið er að fyrri framhlaup hafi orðið 1890, 1931 og 1938. Meðan á framhlaupinu stóð 1972 og fyrstu árin á eftir jókst rennsli Jökulsár í Fljótsdal nokkuð. Óljóst er hvort vatnssöfnunin í Háöldulóni núna sé til merkis um að framhlaup jökulsins sé framundan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert