Segja bankann keyra lífvænlegt fyrirtæki í þrot

Landsbankinn lagði fram gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur Festi í síðasta mánuði. …
Landsbankinn lagði fram gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur Festi í síðasta mánuði. Héraðsdómur mun úrskurða í málinu í morgun. mbl.is/Golli

Útgerðarfyrirtækið Festi ehf. hefur farið fram á að gjaldþrotaskiptabeiðni Landsbankans á hendur fyrirtækinu verði afturkölluð. Lögfræðingur þess segir að forsendur fyrir því að leggja fram og viðhalda slíkri beiðni séu algerlega brostnar eftir að lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og efnahags- og gjaldeyrishrunsins voru samþykkt á Alþingi.

Héraðsdómur Reykjaness mun úrskurða í málinu á morgun og að sögn Boga Guðmundssonar, lögfræðings Festi, hefur Landsbankinn sagt að beiðnin verði ekki afturkölluð. Þetta hefur mbl.is fengið staðfest hjá bankanum, sem hefur að öðru leyti ekki tjáð sig um málefni fyrirtækisins.

Bogi segir að með því að viðhalda beiðninni fari Landsbankinn á skjön við þann megintilgang laganna að aðstoða lífvænlegan skuldara bankans við það að komast út úr rekstrarerfiðleikum, sem eigi sér rót í gjaldeyrishruninu og hruni bankakerfisins. Festi falli í þann flokk að teljast vera lífvænlegt félag enda skapi félagið miklar tekjur og framlegð félagsins sé ásættanleg miðað við þá atvinnugrein sem félagið starfi í.

Brjóti í bága við nýsamþykkt lög

 „Það þarf að afturkalla þessa beiðni og vill umbjóðandi minn einungis fá tækifæri til að vera meðhöndlaður á grundvelli nýrra reglna eins og önnur félög í sambærilegri stöðu,“ segir Bogi. Gjaldþrotaskipti á hendur félagi eins og Festi brjóti í bága við nýsamþykkt lög.

Hann bendir á að lögin, sem tóku gildi 1. nóvember sl., marki tímamót. Þau séu svar löggjafans við því hvernig fjármálafyrirtæki skuli lögum samkvæmt bregðast við skuldavanda heimila og fyrirtækja í landinu. Tekin séu öll tvímæli um það hvernig fjármálafyrirtæki skuli styðja við og taka á málefnum yfirskuldsettum fyrirtækja. Markmið laganna sé að koma sem flestum einstaklingum og lífvænlegum fyrirtækjum í gegnum efnahagserfiðleikana.

Samkvæmt nýju lögunum sé  bönkunum gert að setja sér reglur sem byggja á þeim viðmiðum sem koma fram í lögunum. Slíkar reglur hafi bankinn ekki sett sér og því veki furðu að bankinn telji sér stætt að setja félagið í þrot á svo viðkvæmum tímapunkti.

Gjá á milli banka og löggjafa?

Bogi bendir á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sagt að forsenda þess að efnahagslífið komist á réttan kjöl felist í því að félögum verði gert kleift að borga af skuldum miðað við greiðsluþol. „Hann [Landsbankinn] er að keyra það [Festi] í þrot þrátt fyrir þessu nýju lög og óréttlætið er algjört,“ segir Bogi og bætir við að þetta veki spurningar um starfshætti bankans. Því Festi sé ekki eina fyrirtækið sem sé í vanda statt. „Er gjá á milli bankanna og vilja löggjafans,“ spyr Bogi.

Hjá Festi starfa 100 manns. Bogi segir að með gjaldþrotaskiptameðferð verði rekstrarmöguleikar félagsins engir, hætta sé á að starfsfólk missi vinnuna og margir þjónustuaðilar og kaupendur verði fyrir miklu tjóni. Þá bendir hann á að þetta muni jafnframt leiða til þess að önnur félög, sem hafi þjónustað Festi í góðri trú um að fá greitt, verði fyrir miklu tjóni.

Bauðst til að greiða vexti

Bogi segir eitt það alvarlegasta í málinu vera það að félagið hafi óskað eftir því að fá að greiða vexti. Það hafi boðið bankanum, ef sú staða kæmi upp eftir sex mánuði, að ef ekki fyndist lausn á málefnum félagsins, að eigendur Festi myndu afsala félaginu til eignaumsýslufélags Landsbankans.

„Þessi staðreynd endurspeglar að ekki er knýjandi þörf á að setja félagið í þrot. Afleiðingar gjaldþrotsins eru hræðilegar og munu saklausir þriðju aðilar sem hafa veitt þjónustu til handa Festi, fá ekkert greitt fyrir þjónustu við félagið síðustu mánaða þar sem allt tekjuflæði félagsins hefur verið læst á handveðsettum reikningum hjá bankanum. Þetta veit bankinn og tekur samt af skarið um að setja félagið í þrot. Aðrar leiðir hefðu verið tækar sem hefðu ekki haft í för með sér jafn neikvæð áhrif,“ segir Bogi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert