Ólík áhrif kreppunnar á kynin

Audun Bjørlo Lysbakken jafnréttisráðherra Noregs, Stefan Wallin menningar- og íþróttamálaráðherra …
Audun Bjørlo Lysbakken jafnréttisráðherra Noregs, Stefan Wallin menningar- og íþróttamálaráðherra Finnlands og Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra www.norden.org/nordbild

Fjármálakreppan hefur haft ólík áhrif á Norðurlöndum og sjálfstjórnarsvæðunum. Hún hefur einnig haft ólík áhrif á konur og karla. Ungt fólk hefur lent í erfiðleikum, sérstaklega ungir karlar, við að komast inn á vinnumarkaðinn. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi norrænna jafnréttisráðherra í gær.

  Á fundinum kynntu norrænu jafnréttisráðherrarnir sér vandamál sem tengjast kynferði og fjármálakreppunni.

„Mikilvægt er að skoða ólík áhrif kreppunnar á karla og konur. Margt bendir til þess að ungir karlar á Norðurlöndum hafi orðið verst fyrir barðinu á fjármálakreppunni á vinnumarkaði. Það er gríðarmikið verkefni að koma þessum ungu körlum aftur út á vinnumarkaðinn. Þetta verður nýjung í jafnréttisstefnu", sagði Árni Páll Árnason jafnréttisráðherra Íslands á fundinum, að því er fram kemur á vef norrænu ráðherranefndarinnar.
 
Meginniðurstöður rannsóknaverkefnisins Kynferði og völd voru einnig kynntar fyrir ráðherranefndinni um jafnréttismál, en þær verða kynntar í heild sinni á stórri norræni ráðstefnu sem haldin verður í Reykjavík 19. nóvember.

Gestir Árna Páls Árnasonar á fundinum voru þau Audun Bjørlo Lysbakken jafnréttisráðherra Noregs, Stefan Wallin menningar- og íþróttamálaráðherra Finnlands, Christer Hallerby ráðuneytisstjóri frá Svíþjóð og Marie Hansen framkvæmdastjóri frá Danmörku. Jafnréttisfundurinn var sögulegur þar sem að allir ráðherrarnir þrír voru karlar, að því er segir í fréttatilkynningu frá norrænu ráðherranefndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert