Fjöldi samviskufanga leystur úr haldi í Túnis

Merki Amnesty International
Merki Amnesty International

Amnesty International fagnar því að 68 fangar hafi verið leystir úr haldi í Túnis. Þeim hafði verið haldið í fangelsi í rúmlega ár í tengslum við fjöldamótmæli gegn atvinnuleysi og dýrtíð í Gafsa-héraði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Íslandsdeild Amnesty International hefur sent frá sér.

Þar kemur fram að samtökin hvetji yfirvöld í Túnis til að láta af kúgun á óháðum blaðamönnum og baráttumönnum fyrir mannréttindum sem hefur aukist eftir forseta- og þingkosningar sem haldnar voru í landinu nýverið.

Öllum 68 föngunum var sleppt eftir að forseti landsins, Zine El-Abidine Ben Ali, náðaði þá í tilefni þess að 22 ár voru liðin frá því að hann komst til valda þann 7. nóvember 1987.

„Margir hinna handteknu voru samviskufangar, sem haldið var fyrir það eitt að nýta sér tjáningar- og fundafrelsi sitt með friðsamlegum hætti.

Náðun mannanna var skilyrt og líklegt er að þeir sem brjóta gegn skilyrðunum verði aftur handteknir og látnir afplána það sem eftir er af fangelsisdómnum sem þeir fengu,“ segir m.a. í tilkynningunni.

Meðal þeirra sem leystir voru úr haldi eru verkalýðsleiðtogarnir Adnan Hajji, Bechir Laabidi, Adel Jayar og Tayeb Ben Othman, sem voru dæmdir í fangelsi í allt að 8 ár í febrúar 2009 eftir það sem Amnesty International lýsa sem mjög óréttlátum réttarhöldum.

Mennirnir voru ákærðir fyrir að hafa leitt mótmælin í Gafsa fyrri hluta árs 2008. Um 50 aðrir sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í mótmælunum eru enn á flótta. Réttað var yfir þeim í fjarveru þeirra.

Þeirra á meðal er Mohieddine Cherbib, baráttumaður fyrir mannréttindum sem býr í Frakklandi. Fahem Boukadous, fréttamaður á sjónvarpsstöðinni al-Hiwar Ettounsi í Túnis, á einnig réttarhöld yfir höfði sér verði hann handtekinn.

Amnesty International segjast, í tilkynningu sinni, fagna því að forseti Túnis skuli hafa náðað fangana 68 en hvetur stjórnvöld í landinu til að hætta við ákærur gegn öllum sem hafa sætt ákæru eða eiga ákæru yfir höfði sér vegna friðsamlegrar þátttöku þeirra í mótmælunum í Gafsa.

Samtökin hvetja stjórnvöld í Túnis einnig til að gera opinberar niðurstöður allra rannsókna á því þegar öryggissveitir drápu tvo mótmælendur í Gafsa á síðasta ári.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert